Höggið af loðnubresti hlutfallslega þyngst á Vopnafirði

Útsvarstekjur Vopnafjarðarhrepps drógust saman um 5,6% á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Tekjutap hreppsins og Fjarðabyggðar vegna loðnubrests er samanlagt metið á um 300 milljónir. Sjávarútvegssveitarfélög krefjast þess að fá hluta af auðlindagjaldi í sjávarútvegi til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf sem mætt geti sveiflum sem þessum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um áhrif loðnubrests á sveitarfélög sem unnið var af RR Ráðgjöf fyrir Samtök sjávarútvegsfélaga. Skýrslan var kynnt á fundi sem samtökin héldu í gær.

Í skýrslunni er horft á áhrif loðnubrestsins í byrjun árs á fimm sveitarfélög þar sem loðnuvinnslan fer fyrst og fremst fram: Vestmannaeyjabæ, Langanesbyggð, Fjarðabyggð, Vopnafjarðarhrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð.

Í skýrslunni kemur fram að bein áhrif loðnubrests á tekjur sveitarfélaganna séu áætlaðar rúmar 500 milljónir króna í ár. Annars vegar er tekjutapinu skipt upp í skatttekjur, hins vegar tekjur hafnarsjóðs.

300 milljóna tekjutap á Austurlandi

Í krónum talið er tapið mest í Fjarðabyggð, samanlagt 280 milljónir eða 180 milljónir í skatttekjum og 100 milljónir hjá hafnarsjóði. Tap Vopnafjarðar var 23,5 milljónir samanlagt, 10,5 milljónir í skatttekjum og 13 milljónir hjá hafnarsjóði. Samanlagt tap austfirsku sveitarfélaganna tveggja vegna loðnubrestsins nemur því rúmum 300 milljónum króna.

Í skýrslunni kemur fram að í heildina séu sveitarfélögin fimm að tapa 4,5-6,7% af skatttekjum og tekjum hafnasjóða. Reiknað niður á hvern íbúa er tapið 40.000 krónur. Sé horft á austfirsku sveitarfélögin tvö er tapið 55 þúsund krónur rúmar á mann í Fjarðabyggð en 35 þúsund á Vopnafirði.

Þá er farið yfir áhrif á staðgreiðslu útsvars á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Hún hækkaði að meðaltali um 6,1% á landsvísu fyrstu sex mánuði ársins, eða 4-7% í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem aukningin var 2,3%.

Á Vopnafirði drógust útsvarstekjurnar um 5,6% eða tæpar 7,4 milljónir. Í Fjarðabyggð jukust þær um 1,6% eða 18,6 milljónir. Út frá þessu fullyrða skýrsluhöfundar að tekjutap Vopnafjarðarhrepps sé áberandi mest og benda á að það sé trúlega ekki komið fram að fullu.

Vilja fá hlut í auðlindagjaldi

Komið er inn á að bæði fyrirtæki og sveitarfélög sem byggi afkomu sína á uppsjávarveiðum geri alltaf ráð fyrir sveiflum en ekkert sveitarfélag geri ráð fyrir að engin loðna veiðist. Slíkt áfall geri það að verkum að svigrúm sveitarfélaganna til að takast á við aðra þætti verði lítið sem ekkert og tekjutapið dragi úr möguleikum þeirra til að veita aðra þjónustu.

Í niðurlagi er bent á að áfallið sé mest á þau sveitarfélög þar sem atvinnulíf sé einhæfast, þau geti ekki aflað annarra tekna og fá tækifæri fyrir íbúa að fá aðra atvinnu við hæfi. Sjávarútvegssveitarfélögin minna því á kröfu sína um að fá hlutdeild í tekjum af auðlindanýtingu í sjávarútvegi til að geta tekist á við sveiflur sem séu óumflýjanlegar í rekstri sem byggir á nýtingu auðlindarinnar og til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf. Það á ekki síst við um sveitarfélög sem byggja á uppsjávarveiðum og vinnslu, þar sem óvissa er enn meiri en við við veiðar og vinnslu á bolfiski.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.