Orkumálinn 2024

Höfum tækni, þekkingu, jarðnæði og mannskap til að rækta korn

Varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs úr Norðausturkjördæmi segir að breyta þurfi stuðningskerfi landbúnaðarins þannig hvatt verði til kornræktar hérlendis. Aðstæður hafi breyst síðustu áratugi þannig það sé vel raunhæft og jafnvel nauðsynlegt.

Kári Gautason, varaþingmaður VG frá Vopnafirði, ræddi kornræktina þegar hann tók sæti á Alþingi í síðustu viku en hann lagði seint á síðasta ári fram þingsályktunartillögu um áætlun um eflingu kornræktar.

Í ræðunni nú sagði Kári, sem jafnframt er aðstoðarmaður matvælaráðherra, mikilvægi íslenskrar kornræktar hafa stóraukist og kallaði á „tafarlausar ákvarðanir og áætlanir.“

Verð á ýmiss konar kornvöru hefur hækkað hratt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu sem aftur hefur áhrif á bændur og neytendur, jafnt hérlendis sem erlendis. Sameinuðu þjóðirnar eru meðal þeirra sem varað hafa við hættu á hungursneyð í ýmsum löndum.

Kári útskýrði að þótt Úkraína framleiddi ekki nema 4% á korni heimsins væri hlutur hennar mun hærri á markaði á korn milli landa í tegundum eins og sólblómum, maís, hveiti og byggi, auk þess sem hún sé nærri ríkjum sem ekki getað ræktað nægt korn sjálfar.

Ísland treystir á korn á alþjóðlegum markaði og nær allt korn sem notað er í dýrafóður hérlendis er innflutt. Kári sagði innflutninginn hafa átt rétt á sér á síðustu öld en síðan hafi staðan breyst.

„Við höfum þekkingu, tækni, mannskap og jarðnæði til að framleiða talsverðan hluta af því korni sem við þurfum ofan í mannfólk og skepnur. Það þarf á hinn bóginn að gera tilteknar breytingar á stuðningskerfi landbúnaðar svo það virki hvetjandi fyrir kornrækt og ég tel að forsendur séu nú loks fyrir hendi til að drífa það mál áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.