Höfuð Þorsteins komið í leitirnar

Höfuðið af brjóstmynd ljóðskáldsins Þorsteins Valdimarssonar, sem hvarf úr Hallormsstaðarskógi í sumar, er komin aftur í hendur Skógræktarinnar. Höfuðið fannst fyrir tilviljun í heimahúsi á Egilsstöðum.

Í frétt Skógræktarinnar segir að lögregluþjónar hafi verið staddir í heimahúsi í bænum vegna annars verkefnis þegar þeir tóku eftir höfðinu. Íbúi í húsinu sagðist hafa fundið höfuðið í runna.

Höfuðið hefur í áraraðir staðið á stuðlabergsstöpli í Trjásafninu á Hallormsstað á stað sem kallast Svefnósar. Þar bjó Þorsteinn gjarnan í tjaldi þau sumur sem hann vann í skóginum. Um miðjan ágúst hvarf höfuðið af stallinum og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.

Fram kemur að lögregla muni ekki aðhafast frekar í málinu nema Skógræktin leggi fram kæru. Þar segir að mestu skipti að höfuðið sé fundið og komið í örugga vörslu. Næst verði hugað að því hvernig því verði komið aftur á sinn stað, gestum skógarins til yndisauka og til minningar um Þorstein.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.