Orkumálinn 2024

Hækkun vatnsborðs meiri en reiknað var með eftir virkjun

karahnjukar.jpg

Vatnsyfirborð Jökulsár í Fljótsdal, Lagarins og Lagarfljóts hefur almennt hækkað meira eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta á einkum við um Úthérað. Rennsli vatnsfallanna er hins vegar jafnara en áður. Áhyggjur eru af hækkun grunnvatns á náttúruminjar.

 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á vatnsborð og grunnvatn á láglendi á Héraði. Veðurstofa Íslands tók skýrsluna saman en hún er hluti af mælinum við sjálfbærniverkefni Landsvirkjunar og ALCOA.

Mæld er grunnvatnsstaða við vatnsföllin og yfirborðsstaða þeirra á níu stöðum frá stöðvarhúsinu í Fljótsdal og út í sjó auk þess sem stöð er við Húsey til að mæla breytingar á rennsli Jökulsár á Dal við ósa sína. 

Í Fljótsdal hefur meðalvatnshæðin hækkað um rúma þrjátíu sentímetra. Grunnvatnsstaða á Valþjófsstaðarnesi hefur minnkað vegna mótvægisaðgerða en hækkað í kringum Skriðuklaustur svipað og ráð var fyrir gert.

Í kringum Egilsstaði er hækkunin minni, meðalyfirborðshækkunin er 15-30 sm. Sumartoppurinn er þar svipaður og áður en rennslissveiflur við allar mælingastöðvarnar hafa minnkað. 

Við Lagarfossvirkjun hefur yfirborðið lækkað um 36 sm. enda var klapparhaft við virkjunina sprengt í burtu til að auka rennslið. Vatnsyfirboðið í Jökulsá á Dal hefur einnig lækkað um 25 sm. við Húsey enda minna vatn í ánni eftir að stórum hluta hennar var veitt í Jökulsá í Fljótsdal.

Mest er hækkunin í Lagarfljóti á Úthéraði. Landhalli er þar mjög lítill og „mótvægisaðgerðir óraunhæfar.“ Mælt var við bæinn Hól en þar hafði yfirborðið hækkað um 66 sentímetra að meðaltali. Frávikið frá áætlunum er einnig mest þar af mælingastöðvunum.

Í skýrslunni er bent á að takmarkaðar upplýsingar séu til um rennsli vatnsfallanna nema síðustu árin fyrir virkjun. Þar sem eldri upplýsingar eru til staðar, til dæmis við Lagarfljótsbrú, virðist hækkunin eftir virkjun minni en ella. 

Breyting á vatnsstöðu hefur meðal annars áhrif á gróðurfar og landbrot. Í bókun umhverfis- og héraðsnefndar Fljótsdalshéraðs, þar sem skýrslan var tekin fyrir, er lýst áhyggjum af breyttri grunnvatnsstöðu Lagarfljóts eftir virkjun. Ljóst sé að hækkunin auku rof á viðkvæmum árbökkum. Áhrifanna af breyttri grunnvatnsstöðu gæti víða og náttúruminjasvæði sem liggi undir skemmdum séu sérstakt áhyggjuefni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.