Hissa á að ekki væri lögð meiri áhersla á fjárhagsáætlun í stjórn HEF

Fulltrúi Héraðslistans í stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) gagnrýnir að upplýsingar um fjárhagsáætlun fyrirtækisins á næsta ári hafi verið lagðar fram í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs áður en þær voru afgreidd af stjórn fyrirtækisins. Fulltrúar meirihlutans segir að fullt svigrúm gefist til að ræða áætlun á milli umræðna bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunáætlun sveitarfélagsins.

„Í samkomulagi meirihlutans frá í vor er kveðið á um skynsemi og aðhald og að endurskoðað verði verklag til að tryggja þátttöku kjörinna fulltrúa að gerð fjárhagsáætlunar.

Ég sit í stjórn HEF og þar hafa verið haldnir fjórir fundir síðan í haust, sem mér skilst að séu færri fundir en venjulega. Utan síðasta fundar, þar sem lögð voru fram drög að árshlutauppgjöri og framkvæmdaáætlun, höfum við ekki fengið til samþykktar fjárhagsáætlun, gjaldskrá eða fjárfestingaætlun.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs er gert ráð fyrir 100 milljóna lántöku til að sjóðsstreymi HEF gangi upp. Það byggir á vinnutillögu hitaveitustjóra sem hann vann með KPMG. Við þetta er fyrirvari um formlega afgreiðslu stjórnar HEF.

Þetta er með ólíkindum og fjarri markmiði um virka þátttöku kjörinna fulltrúa,“ sagði Björg Björnsdóttir, fulltrúi Héraðslistans í stjórn HEF á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í síðustu viku við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár.

Ekki stjórnsýsla til eftirbreytni

Björg gagnrýndi frekari upplýsingaskort um málefni HEF, til dæmis að veitunni væri ætlað að standa að baki ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sveitarfélagsins en fyrir því verkefni væri hvorki til framkvæmdaáætlun né áætlun um heildarkostnað.

Björg sagði það ekki stjórnsýslu til eftirbreytni að ætla stjórn HEF að samþykkja fjárhagsáætlun fyrirtækisins þegar búið væri að ákveða hana á öðrum vettvangi. Í bókun sem hún lagði fram fyrir hönd Héraðslistans er óskað eftir fundi með bæjarstjóra til að skýra verklag við gerð fjárhagsáætlunar HEF og fara yfir hvernig áætlanir í B-hluta sveitasjóðs hafi áhrif á fjármögnun sveitarfélagsins í heild.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins kemur fram að HEF þurfi að taka allt að 100 milljón króna lán til að mæta fjárfestingaþörf á næsta ári. Gert er ráð fyrir að Hitaveitan fjárfesti fyrir 209 milljónir, tvöfalt meira en í ár.

Ekki búið að binda hendur stjórnar HEF

Gunnar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður stjórnar HEF, sagði rétt að stjórnin væri ekki búin að fjalla um fjárhagsáætlun eða framkvæmdaáætlun, en síðarnefnda áætlunin hefði verið lögð fram eftir síðasta stjórnarfund.

Hann sagði stjórn HEF hafa fullt vald til að taka ákvarðanir um fjárhagsáætlun veitunnar á milli umræðna um fjárhagsáætlun bæjarstjórnar. Hann benti einnig á að framkvæmdastjóraskipti HEF gætu hafa haft áhrif á að áætlunin væri síðar á ferðinni en æskilegt væri. Að endingu sagði Gunnar að útlit væri fyrir að hægt væri að komast hjá lántökunni, eða ekki fullnýta hana.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, sagði ákveðinn tímaramma tiltekinn í lögum fyrir sveitarfélögin. Þegar svo hittist á að fyrirtæki í B-hluta séu ekki tilbúin með sínar áætlanir í tæka tíð þurfi sveitarfélagið samt fyrir fyrstu umræðu að leggja fram tölur. Með því sé ekki verið að binda hendur stjórnar HEF:

Björg svaraði því til að hún þekkti reglurnar. Hennar skoðun væri þó að heppilegra hefði verið að nýta tímann í haust til að ræða áætlun fyrirtækisins og stjórn styddi við nýjan framkvæmdastjóra, en ekki að lagðar væru fram tölur í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins sem líklega myndu breytast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.