Himinlifandi að Styrkleikarnir fara fram á Egilsstöðum

„Það sem er sérstaklega mikilvægt er að það séu öflug krabbameinsfélög á svæðinu sem geta aðstoðað við undirbúning allan og ekki síður að viðkomandi sveitarfélag sýni þessu góðan áhuga sem er sannarlega raunin í Múlaþingi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Þar á bæ eru menn himinlifandi með hversu vel sveitarfélagið Múlaþing hefur tekið í ósk þess efnis að næstu Styrkleikar Krabbameinsfélagsins fari fram á Egilsstöðum síðla í ágúst eða byrjun september á næsta ári. Styrkleikarnir er nokkurs konar boðganga eða boðhlaup sem stendur samfleytt í 24 stundir og eiga að vera táknrænir fyrir að enginn fær hvíld frá krabbameini á neinum tíma sólarhringsins. Minnst einn úr hverju liði þarf að vera á hreyfingu allan þann sólarhring.

Byggðaráð Múlaþings tók vel í erindi félagsins vegna þessa og vilja rétta hjálparhönd við undirbúninginn en þetta er aðeins í annað skipti sem Styrkleikarnir eru haldnir á Íslandi þó slíkir viðburðir hafa lengi farið fram annars staðar í veröldinni. Þeir fóru fyrst fram hérlendis á Selfossi í vor sem leið og segir Halla að árangurinn af því hafi verið mikill og góður.

„Svo sannarlega. Frábær þáttaka þar og mikil ánægja þeirra sem að komu og ekki síður þeirra sem tóku þátt. Fyrst og fremst er viðburðurinn fjáröflun fyrir Krabbameinsfélagið en einstaklingar og fyrirtæki geta heitið á tiltekin lið eða hópa sem taka þátt og þannig liðsinnt öllu starfi okkar. En stór hluti af þessu er líka samvera fólks sem glímir við veikindi, að skapa samstöðu og samhug og ekki síst heiðra og minnast þeirra sem fengið hafa krabbamein. Það gerum við meðal annars með sérstakri ljósastund í lokin á leikunum og það er þess vegna sem þetta er skipulagt á þessum tíma.“

Styrkleikarnir á Selfossi í vor tókust afar vel en slíkir leikar fara fram í fjölmörgum löndum heims og jafnan ávallt í smærri bæjarfélögum en ekki í stærri borgum. Mynd Krabbameinsfélagið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.