Hið óvænta lykilatriðið við kokteilinn

Einn af frumkvöðlunum í kokteilsenunni á Íslandi, Ásgeir Már Björnsson, hristir kokteila ofan í gesti veitingastaðarins Nielsen á Egilsstöðum í júnímánuði. Ásgeir segir lykilatriði að koma á óvart með kokteilnum og er óhræddur við að prófa sig áfram með ný hráefni.

„Ég vinn núna á hóteli í Danmörku en langaði að koma heim í sumar, sýna kærustunni minni Ísland og sjá um leið hluta af landinu sem ég þekki síst.

Mig langaði líka að vinna með Kára (Þorsteinssyni, matreiðslumanni á Nielsen). Við þekkjumst frá fornri tíð og hann gerir skemmtilega hluti. Mig langaði að sjá þá og vinna með þetta íslenska hráefni,“ segir Ásgeir, sem gengur undir nafninu Ási Mixmaster í veitingageiranum.

Af þeim sem til þekkja hefur honum verið lýst sem einum af frumkvöðlunum í íslenskri kokteilamenningu undanfarinn áratug. „Ég er lærður þjónn og var yfirþjónn á Hótel Búðum. Ég fór að hafa áhuga á kokteilum, var ekki alltaf sáttur við útkomuna, þannig ég fór að lesa mér til. Ég fór síðan út til Noregs og Danmerkur og komst bæði að því að það er ýmislegt sem ekki stendur í bókunum auk þess sem ég kynntist mikið af fólki.

Ég snéri síðan heim og tók til starfa á Slippbarnum. Þar blandaði ég saman klassískum hefðum og mínum pælingum svo úr varð veisla. Þangað flutti ég inn fólk sem ég hafði kynnst erlendis auk þess að vera með „pop-up“ bari eins og hér. Síðan kom ég að opnun nýrra staða, eins og Pablo Discobars auk þess að standa fyrir kokteilráðstefnu, þangað sem við fengum nokkra af færustu kokteilbarþjónum heims.

Ég kom á réttum tíma heim í upprisu kokteilsins. Þetta vatt allt upp á sig og myndaði nýja senu sem virðist enn blómstra,“ segir Ásgeir.

„Að mínu viti snýst kokteillinn fyrst og fremst um að koma fólki á óvart. Ég hef gaman af að gera það sem fólk býst ekki við og breyta til, til dæmis hrista viskí í gömlum bjórflöskum eða vera á teknóklúbbum.

Ég vinn með hráefni sem fólk tengir ekki við kokteila eins og edik, mysu og skyr. Ég hef prófað mig áfram með nútímahráefni, svo sem viskí sem elst hefur með hljóði. Mér finnst líka gaman að vinna með minni framleiðendum, til dæmis hef ég tekið ginið frá Reykjavík Distellry með mér út á hótelið í Danmörku.

Ég vil taka valið af fólki. Allt sem það þekkir nota ég ekki. Hér á Nielsen prófa ég mig áfram með skyrmysu og edik sem Kári hefur unnið. Síðan fer ég út í garð til að sækja rabarbara og hvönn. Þessu púsla ég síðan saman í eitthvað sem vonandi er hægt að drekka og njóta.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.