Heyskapur sækist hægt á Borgarfirði

Heyskapur hefur ekki gengið vel á Borgarfirði í sumar í vætutíðinni. Jón Sigmar Sigmarsson bóndi á Desjarmýri í Borgarfirði segist vonast til að bændur geti heyjað meira á næstu vikum en staðan sé ekki nógu góð.

„Nei heyskapurinn gengur ekki nógu vel. Ég er að slá núna í von um að það ætli eitthvað að fara að rofa til í næstu viku. Sjálfur á ég nú kannski minni hlutann eftir en það eru einhverjir sem eiga meira eftir og varla nokkur búinn svo ég viti, ekki þá nema einhverjir smábændur. Þetta er búið að vera erfitt,“ segir Jón Sigmar. 

Jón segir veðrið ekki aðeins hafa þau áhrif að minna sé heyjað heldur verði gæði fóðurs ekki eins og best verði á kosið við þessar aðstæður. „Ég get talið góða þurkdaga á fingrum annarar handar og það sem meira er; þetta hey sem þó er búið að heyja er ekki jafn þurt og maður hefði viljað hafa það. Maður hefur yfirleitt alltaf þurft að stökkva til og rúlla fyrr en maður hefði viljað. Og svo verður þetta náttúrulega ekki beisið fóður sem næst hér eftir, orðið úr sér sprottið.“

Jón segir það einnig hafa haft áhrif að erfitt hafi verið að treysta á veðurspár í sumar. „Í síðustu viku til dæmis, þá náði ég bara smávegis en hefði sjálfsagt getað heyjað meira, það bara spáði alltaf rigningu sem svo varð ekki. Það voru þarna tveir dagar sem var alveg þurt, þannig að veðurspárnar eru svolítið flöktandi.“

Jón Sigmar hefur þó ekki trú á að hey skortur verði á Borgarfirði. „Nei ég hef nú von um að það verði ekki, allavega ef menn ná eitthvað meiru þá ætti það ekki að verða. Sjálfur held ég að ég myndi sleppa með það sem ég á núna. Ég er ekki viss um að það eigi við alla en ef menn ná einhverju í viðbót þá held að það verði ekki hætta á því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.