Heyskapur hafinn á Vopnafirði

Heyskapur hófst á nokkrum bæjum í Vopnafirði í lok síðustu viku. Bændur þar hefðu þó viljað hafa sól lengur til að geta haldið áfram að slá.

„Ef ekki væri rigning þá hefði ég haldið áfram. Grasið er farið að leggjast hérna í rigningunni,“ segir Örvar Már Jónsson, bóndi í Háteigi.

Örvar hirti af tveimur túnum á fimmtudaginn í síðustu viku. Hann viðurkennir að hæpið sé að telja þann heyskap með þeim formlega, annað túnið sé ætlað fyrir beit, hitt eigi að plægja og rækta upp.

Hann hafi því farið í að hreinsa af þeim, fengið 70 rúllur og ágætis hey. Hann segir að fleiri Vopnfirðingar séu komnir af stað, meðal annars hafi verið slegið í Engihlíð.

Heyskapur fyrstu vikuna í júní er sjaldgæfur á Austurlandi en vorið hefur verið óvenjugott. „Sumarið byrjar svipað og í fyrra. Það var hrikalega þar til kom að slætti, þá kom rigningartíð og var leiðinlegt í nokkurn tíma,“ segir Örvar Már sem hóf búskap á Háteigi í maí í fyrra.

Þar býr hann með Heiðrúnu Erlu Hjartardóttur og eru þau með 45 kýr, 80 naut, 23 hesta, 9 kindur og 2 hrúta.

Örvar segist hafa haft hug á að halda áfram að slá í síðustu viku. „Hún var dálítið á tánum og dró heldur úr mér en hitt. Hún vissi að félagar mínir kæmu til að steggja mig á föstudeginum og hafði áhyggjur að ég héldi áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar