Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar fer í Lúðvíkshús

Stefnt er að því að stækka nýuppgert Lúðvíkshús í Neskaupstað svo hægt verði að hýsa Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar og mun stækkunin vera 277 m3.

Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar hefur verið frá stofnun árið 1979 í umsjón Guðmundar Sveinssonar, héraðsskjalavarðar, og hefur starfsemin til þessa verið á heimili hans.


Lúðvíkshús er elsta hús Norðfjarðar og var það flutt inn tilhöggvið frá Noregi árið 1881. Það stóð upphaflega á Nesströnd en var flutt árið 1885 við Nesgötu. Húsið er friðað vegna aldurs og er því bannað að breyta því, rífa eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofunar.


Árið 2013 veitti forsætisráðherra styrk upp á 10 milljónir fyrir endurbyggingu á Lúðvíkshúsi og árið 2015 samþykkti Minjastofnun flutning hússins á Þiljuvelli 13 þar sem það stendur í dag.


Alark arkitektar hafa teiknað stækkun á jarðhæð Lúðvíkshúss þar sem fyrirhugað er að héraðsskjalasafnið verði og í maí síðastliðnum óskuðu arkitektarnir eftir áliti Minjastofnunar á breytingunni.


Minjastofnun heimilaði þær breytingar sem lagðar voru til. „Stækkun jarðhæðar er lítt áberandi frá götu og hefur óveruleg áhrif á ásýnd og ytra borð hins upphaflega friðaða húss sem þegar hefur verið gert upp á vandaðan hátt,“ segir í niðurstöðu Minjastofnunar.


Eigna-, skipulags-, og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbygginguna og fer málið nú til bæjarstjórnar til staðfestingar á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.