Orkumálinn 2024

„Hér vil ég vera og vinna fyrir mitt fólk“

Inga Rún Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, opnaði nýverið fyrirtækið Fjölskylduþjónustu Austurlands á Reyðarfirði. Markmið þess er að veita persónulega og faglega þjónustu sem mætir þörfum skjólstæðinga.


Inga Rún hefur meira og minna starfað sem félagsráðgjafi á Austurlandi frá því hún lauk námi í félagsráðgjöf árið 2006 og þar til núna í vor, bæði hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar. Hún hefur einnig lokið diplómanámi í barnavernd og fjölskyldumeðferð og stefnir á að ljúka við meistararitgerð sína í fjölskyldumeðferð vor.

Mikilvægt að hafa slíka þjónustu í heimabyggð
„Ég hef fundið mikla þörf fyrir þjónustu sem þessa í okkar samfélagi og segja má að það hafi verið ástæða þess að ég fór í námið í fjölskyldumeðferð og opnaði stofuna. Ég hef unnið lengi við barnavernd, en það er þó þannig í svo litlu samfélagi að maður verður að sinna og vera inn í öllum málaflokkum félagsþjónustunnar, þá hefur barnaverndin verið mitt sér- og áhugasvið. Hér er mikill skortur á úrræðum en það er erfitt að vera barnaverndarstarfsmaður og ætla að vera meðferðaraðili í leiðinni. Öll slík þjónusta innan félagsþjónustunnar er aðkeypt, annað hvort að sunnan eða norðan. Mér finnst mjög mikilvægt að slík þjónusta sé í boði í heimabyggð og mig langar að leggja mitt af mörkum í því efni.

Mér þykja fjölskyldur mjög áhugaverð fyrirbæri enda er ekkert eins mikilvægt og fjölskyldan, þar sem hver einstaklingur mótast og lærir sín grunngildi, tilfinnigaþroska og samskiptafærni. Almenn skilgreining á fjölskyldumeðferð er meðferð þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskyldunnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Hver einstaklingur verður óhjákvæmilega fyrir áhrifum af því sem gerist í lífi annarra í sömu fjölskyldu eða tengslaneti. Megináhersla Fjölskylduþjónustu Austurlands verður m.a. að sinna einstaklings- og fjölskyldumeðferð, hjóna- og parameðferð og almennri félagsráðgjöf. Einnig verð ég með verkefni tengd forvörnum og fræðslu, þannig að það verður allt undir,“ segir Inga Rún sem sér fyrir sér að vera í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu, Skólaskrifstofu Austurlands, heilsugæsluna og Starfsendurhæfingu Austurlands, svo eitthvað sé nefnt.

Vön því að vinna í fjölkjarna sveitarfélagi
Fjölskylduþjónusta Austurlands verður til húsa að Búðareyri 15 á Reyðarfirði. „Ég mun vinna fyrir allt Austurland og landið allt ef eftir því er óskað. Þó svo ég verði með mína starfsstöð hér á Reyðarfirði er ég alls ekki bundin við skrifstofuna, heldur er ég mjög hreyfanleg og set ekki fyrir mig að fara á milli staða enda vön því að vinna í fjölkjarna sveitarfélagi. Ég hef unnið í hverjum einasta bæjarkjarna á Austurlandi og tengslanetið mitt er því mjög sterkt,“ segir Inga Rún.

Stutt er síðan Inga Rún opnaði skrifstofuna en hún segir starfsemina þó vera að skríða af stað og nú þegar er hún komin með verkefni hjá Fljótsdalshéraði og Krabbameinsfélagi Austurlands. Anna Rakel Aðalsteinsdóttir verður í samstarfi við Ingu Rún, en hún er einnig fjölskyldufræðingur. „Sjálf bý ég yfir mikilli reynslu af vinnu með fólki í vanda sem á eftir að nýtast vel í þessari starfsemi. Draumurinn er þó að fá enn fleiri til liðs við okkur þannig að Fjölskylduþjónusta Austurlands verði miðstöð þar sem hægt er að leita eftir þverfaglegri þjónustu undir sama þaki. Ég er með nokkra í sigtinu hér á svæðinu sem ég hef hug á að leita eftir samstarfi við því saman erum við sterkari.“

„Ég hlakka til að byrja af fullum krafti“
Inga Rún lítur björtum augum til framtíðar. „Ég er mjög bjartsýn á þetta allt saman, annars hefði ég aldrei farið út í þetta. Mér finnst ég allavega verða að láta á þetta reyna, þetta er mitt landsvæði, hér á ég heima og hér vil ég vera og vinna fyrir mitt fólk. Ég hef gert það mjög lengi og vil gera það áfram og vona bara að fólk kynni sér og nýti þjónustuna. Ég hlakka bara til að byrja af fullum krafti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.