Orkumálinn 2024

Helgin; „Sárin sjást ekki alltaf utan á fólki“

„Ég er sjálfur svo þakklátur fyrir að eiga góða geðheilsu og geri mér fulla grein fyrir því að það er alls ekki sjálfgefið. Þegar maður er hraustur finnst mér nauðsynlegt að láta eitthvað af hendi rakna og styðja þá sem þurfa á því að halda,“ segir Bjarni Þór Haraldsson á Egilsstöðum sem stendur fyrir 80’s rokkveislu í Valaskjálf í kvöld þar sem allur ágóði rennur til geðsviðs HSA.


Er þetta annað árið í röð sem Bjarni Þór stendur fyrir slíkum tónleikum en í ár eru það þeir Stefán Jakobsson og Dagur Sigurðsson sem koma fram ásamt hljómsveit.

„Þetta verður með svipuðu sniði og í fyrra, allur ágóði rennur til geðsviðs HSA, með áherslu á ungmenni. Tónleikarnir eru einnig með þeim formerkjum þar sem yngri tónlistarmenn eiga sviðið fyrir hlé eins og í fyrra. Það geri ég til þess að hvetja ungt tónlistarfólk til dáða og gefa því tækifæri á að koma fram á stórum tónleikum með frábærum tónlistarmönnum eins og Stebba Jak og Degi. Þetta tel ég einnig hvetjandi fyrir það unga fólk sem kemur að horfa og grasrótin eflist enn frekar.“

„Við höfum allt of mörg mjög dapurleg dæmi hérna fyrir austan“
Hvernig telur Bjarni Þór stöðuna vera í geðheilbrigðismálum ungs fólks á Austurlandi í dag? „Hún er að skána, en „að skána“ er ekki gott. Við höfum allt of mörg mjög dapurleg dæmi hérna fyrir austan sem sýna í hve slæmu ástandi málaflokkurinn er og hvað við erum skammt á veg komin. Mér hefur alltaf þótt það einkennilegt að andleg heilsa skuli vera sett í annan flokk en líkamleg heilsa. Sárin sjást ekki alltaf utan á fólki og þeir sem bera þau innra með sér fá annað viðhorf en þeir sem eru líkamlega veikir. Það er mjög mikilvægt að grípa inn í málin sem allra fyrst ef eitthvað er, það er auðveldara en að ætla að koma inn seinna.“

„Mig langar alltaf að gera aðeins betur“
Bjarni Þór segir að tónleikarnir í fyrra hafi tekist mjög vel og þakklætið hafi verið mikið. „Það var eitthvað sérstakt í loftinu í fyrra, þetta gaf öllum rosalega mikið. Það myndaðist alveg gríðarlega góð stemmning í salnum og í kringum tónleikana í heild sinni, en ég vona svo sannarlega að það verði eins í ár og á ekki von á öðru,“ segir Bjarni, en um 300 gestir mættu í fyrra og 700 þúsund krónur söfnuðust.

„Ég vona að við náum þeirri tölu í ár og jafnvel að hún verði hærri. Það er kapp í mér, mig langar alltaf að gera aðeins betur. Ég vil hvetja alla til þess að mæta og eiga skemmtilega og taktfasta kvöldstund og láta með því gott af sér leiða.“

Ormsteiti
80’s rokkveislan er hluti af Ormsteiti sem hófst í gær. Að þessu sinni fer dagskráin að mestu fram í Blómabæjarhúsinu, en frétt um hátíðina má lesa hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.