Helgin: Fullveldishátíð og fleira

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Frá því eru liðin hundrað ár og þess hefur verið minnst um land allt á árinu með ýmis konar viðburðum sem meðal annars verða á fjórum stöðum á Austurlandi um helgina. Ýmislegt annað verður einnig um að vera í fjórðungnum. 


Á Austurlandi hefur verið unnið að metnaðarfullu verkefni sem ber heitið „Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?“ Þar tóku átta austfirskar mennta-, menningar-og rannsóknastofnanir sig saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli. Verkefnið hefur m.a. getið af sér sýningar sem opnaðar voru síðasta sumar og verða einnig settar upp í Menntaskólanum á Egilsstöðum á morgun, laugardaginn 1. desember, á hátíðardagskrá verkefnisins.

Auk þess verður þar skemmtileg og fræðandi dagskrá sem hnykkir enn frekar á mikilvægi sjálfbærni. Auk þess sem nemendur og kennarar skólans hafa unnið síðustu vikur að verkefnum sem sýnd verða og tengjast fullveldi og sjálfbærni.

Sinfóníuhljómsveit Austurlands með tónleika á Eskifirði
Í tilefni af 100 ára fullveldi á Íslandi mun nýstofnuð Sinfóníuhljómsveit Austurlands stíga á stokk í fyrsta sinn. Boðið verður upp á hátíðleg tónlistardagskrá þar sem um þrjátíu austfirskir hljóðfæraleikarar koma fram ásamt öflugum austfirskum karlakórum og liðsauka að norðan og sunnan.

Efnisskráin endurspeglar tilefnið, 100 ára afmæli fullveldisins. Að tónleikum loknum veitir Berglind Agnarsdóttir, sem jafnframt verður kynnir, gestum innsýn í breytingar á hundrað árum gegnum sögur og leik og Fjarðabyggð býður tónleikagestum í kaffi og veitingar.


Fullveldishátíð á Vopnafirði
Vopnafjarðarskóli, í samstarfi við Menningarmálanefnd, býður til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla laugardaginn 1. desember. Húsið opnar kl. 13:30 en formleg dagskrá hefst klukkan 14:00 með ávarpi. Meðal dagskrárefnis er söngur Kórs Vopnafjarðarskóla og Karlakórs Vopnafjarðar. Þá flytja nemendur ljóð og veittar verða viðurkenningar í ljóðasamkeppni nemenda.

Í skólanum verða til sýnis verkefni nemenda sem unnin verða á þemadögum þar sem þemað er saga Íslands og fullveldisárið 1918. Að dagskrá lokinni er gestum boðið að þiggja kaffiveitingar í boði Ungmennafélagsins Einherja en 1. desember er 89 ára afmælisdagur félagsins.

Sýning í Löngubúð á Djúpavogi
Á Djúpavogi verður opnuð sýningin: ,,Gammur, griðungur, dreki og bergrisi“ þar sem unnið er með fyrsta landvættaskjaldarmerki Íslands sem Ríkarður Jónsson gerði. Á sýningunni eru verk eftir Ríkarð, nemendur grunnskólans og leikskólans. Einnig verður önnur dagskrá til skemmtunar og fróðleiks. Léttar veitingar verða í boði.


Ýmislegt annað verður einnig á döfinni í fjórðungnum um helgina;

Svavar Knútur á Tehúsinu
Söngvaskáldið og sagnamaðurinn Svavar Knútur Kristinsson verður með tónleika í Tehúsinu Egilsstöðum í kvöld, föstudag. Á dagskrá verða bæði frumsamin lög, bæði ný og gömul, auk sígildra íslenskra sönglaga. Þá munu nokkrar sögur verða sagðar, undarlegar og lifandi, sannar og lognar. Svavar Knútur hefur undanfarin ár getið sér gott ár sem söngvaskáld og sagnamaður og hafa útgáfur hans af sígildum íslenskum sönglögum vakið mikla athygli. Þar spilar sterkt inn að Svavar tekur lögin algerlega niður í kjarnann og leikur þau og syngur á sinn einfalda og látlausa hátt.


Jólamarkaður í Valhöll
Jólamarkaður verður í Valhöll á Eskifirði á morgun laugardag milli klukkan 14:00 og 21:00. Markaðurinn er ekki einungis hugsaður fyrir jólavörur, heldur bara hvað sem er. Nemendur í 9. bekk í Eskifjarðarskóla sjá um kaffisölu á staðnum.


Grýlugleði á Skriðuklaustri
Hin árvissa Grýlugleði verður á Skriðuklaustri á sunnudaginn. Gaulálfurinn mætir með fríðu föruneyti sem syngja og segja frá Grýlu og hyski hennar og hver veit nema gömlu hjónin kíki í heimsókn. Aðgangur ókeypis. Klausturkaffi býður upp á girnilegt jólahádegishlaðborð fyrir gleðina og frábært Jólakökuhlaðborð eftir gleðina. Hér má svo lesa viðtal við Grýlu sjálfa. 


Prins Jóló í Herðubreið
Endilega leggið frá ykkur kökukeflið í smástund því Prins Jóló verður í Herðubreið á Seyðisfirði á sunnudaginn. Prins Póló ásamt Benni Hemm Hemm á píanó flytja bestu lög Prinsins í hátíðlegum útgáfum ásamt sérvöldum jólalögum úr eigin smiðju.


Jólaljósin tendruð á Austurlandi
Jólaljósin verða tendruð víðast hvar á Austurlandi um helgina. Hér má sjá dagskrána í Fjarðabyggð og hér á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.