Orkumálinn 2024

Helgin: Aldarafmæli Seyðisfjarðarkirkju

Hátíðarmessa verður í Seyðisfjarðarkirkju á sunnudag í tilefni þess að kirkjan er 100 ára í ár. Á Héraði heldur Ormsteiti áfram og víðar um fjórðunginn eru fjölbreyttir viðburðir um helgina.

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar og lýsir blessun við messuna sem hefst klukkan 14:00. Allir prestar Egilsstaðaprestakalls þjóna fyrir altari og einleikarar og kórar flytja tónlist. Afmæliskaffi verður í Herðubreið eftir messuna.

Á Héraði heldur Ormsteiti áfram. Í kvöld verður gleði í Fellum og á morgun uppskeruhátíð í Vallanesi og dansleikur með Herra Hnetusmjör í Valaskjálf um kvöldið. Þá stendur yfir markaður í gamla Blómabæ.

Á Vopnafirði verður lokahóf Einherja annað kvöld en kvennalið félagsins spilar síðasta leik sumars á Austurlandi þegar ÍH kemur í heimsókn.

Í Neskaupstað verður tónlistarhátíðin Austur í rassgati í Egilsbúð á laugardagskvöld. Fjórar austfirskar hljómsveitir koma þar fram.

Á sunnudag verður Cittaslow-dagurinn haldinn á Djúpavogi. Einstaklingar, félög og fyrirtæki kynna þar starfsemi sína í og við Löngubúð og Faktorshúsið eftir hádegi.

Í húsi Krabbameinsfélags Austfjarða á Reyðarfirði verður fyrirlestur um BRCA og önnur gen sem valdið geta krabbameini klukkan 13:00 á morgun. Ráðgjöf verður í boði eftir fyrirlestrana auk þess sem ljósmyndasýning opnar þar.

Þorgrímur Þráinsson verður með fyrirlesturinn „Litlir hlutir skapa stóra sigra“ í félagsheimilinu Skrúði á Fáskrúðsfirði klukkan 17:00 á sunnudag. Fyrirlesturinn er hluti af Íþróttaviku Evrópu í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.