Helgi Gíslason nýr sveitarstjóri í Fljótsdal

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur gengið frá ráðningu Helga Gíslasonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem nýs sveitarstjóra.

Í tilkynningu kemur fram að Helgi sé fæddur og uppalinn Héraðsbúi, ættaður frá Helgafelli í Fellabæ þar sem hann bjó til ársins 2004.

Helgi er skógfræðingur að mennt, lærður í Svíþjóð. Hann var framkvæmdastjóri Héraðsskóga fyrstu 14 starfsár þess verkefnis en hefur undanfarin 16 ár stýrt Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Í tilkynningu segir að Helgi þekki vel til fólks og samfélags í Fljótsdal, atvinnufyrirtækja og stofnana en hann var um tíma formaður stjórnar Gunnarsstofnunar.

Alls bárust 18 umsóknir um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Ráðningin var staðfest á fundi sveitarstjórnar í gær og segir í tilkynningu að hún hafi verið samþykkt einróma.

Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.