Heitasti júlí aldarinnar á Austurlandi

„Þetta er hlýjasta júlíbyrjun aldarinnar um landið norðaustan- og austanvert og á Miðhálendinu, sú næsthlýjasta á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi, en sú sjöttahlýjasta á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð.“

Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggi sínum á mbl.is. Þar fjallar hann um fyrstu tíu daga júlímánaðar. Fram kemur m.a. að einna hlýjast hefur verið fyrir norðan, meðalhiti á Akureyri er 14,0 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er fimmta hlýjasta júlíbyrjun á Akureyri (við eigum daglegar tölur þaðan frá 1936), að því er segir á blogginu.
 
„Að tiltölu hefur verið hlýjast á fjöllum um landið norðaustan- og austanvert, hiti fyrstu tíu dagana er 7,4 stigum ofan meðallags við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu hefur verið á Patreksfirði, þar er hiti -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára - og í meðallagi á Garðskagavita,“ segir einnig.
 
„Eins og minnst var á á þessum vettvangi fyrir nokkrum dögum hefur 20 stiga hiti mælst einhvers staðar á landinu í óvenju marga daga í röð, þeir eru nú (11.júlí) orðnir 18 en metlengdin er 23 dagar.“

Mynd: Hitakortið á hádegi í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.