Heimsóknir Austfirðinga til sérgreinalækna með fátíðasta móti

Íbúar á Austurlandi eru þeir íbúar landsins sem síst nýta sér þjónustu sérgreinalækna, sé ásókn í þjónustu þeirra borin saman eftir búsetu. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir unnið að nýjum samningum við sérgreinalækna til að efla þjónustu þeirra á landsbyggðinni.

Þetta kom fram í máli Maríu Heimisdóttir, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, á fundi heilbrigðisráðherra og Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á Egilsstöðum um nýsamþykkta heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherrann, sagði kaflann í stefnunni um skilvirk þjónustukaup hafa valdið mestum núningi því deilt sé um hvaða þjónustu ríkið kaupi. Ráðast á í þarfagreiningu til að skilgreina það betur. „Við þurfum virkilega að taka til hendinni til að þjónustukaupin séu miðuð að þörfum notenda.“

Samið um þá þjónustu sem til staðar er en ekki þá sem þörf er á

Sjúkratryggingar halda utan um kaup þjónustunnar og samningagerð fyrir ríkið. María fór yfir nokkrar áskoranir sem framundan eru. Íslendingar eiga stærstu eftirstríðsárakynslóð heims og fyrirséð er 130% aukning í hópi eldri borgara á næstu fimm árum. Það er áskorun fyrir almannatryggingakerfið því heilbrigðiskostnaður manneskju yfir 67 ára aldrei er þrisvar til fimm sinnum meiri en yngri meðalmanneskju,

Hún benti á að verið væri að móta stefnu til þriggja ára um innkaup á heilbrigðisþjónustu. „Hún byggir á þarfagreiningu sem miðar við þarfir íbúanna. Þetta hljómar sjálfsagt en þannig hafa hlutirnir ekki alltaf verið. Oft eru kaupin miðuð við hvaða þjónusta er í boði á hverjum stað en ekki endilega sú sem mest þörf er á.“

María kom inn á gögn úr lýðheilsumælingum sem sýnir að nýting heilsugæslunnar sé með mesta móti á Austurlandi en heimsóknir til sérgreinalækna með minnsta móti. „Annað hvort er heilsan svona góð, heilsugæslan svona góð eða aðgengið að sérgreinalæknunum takmarkað. Ég held að það sé mikið til í því. Verkefni Sjúkratrygginga Íslands er að tryggja að allir landsmenn hafi aðgengi að þjónustunni þegar og ef þeir þurfa.“

Einingakerfið hvetur ekki til þjónustu á landsbyggðinni

Hún var meðal annars spurð út í svokallað einingakerfi sem núverandi samningar við sérgreinalæknar byggja á og hvort það hreinlega vinni gegn því að læknarnir veiti þjónustu á landsbyggðinni. „Stutta svarið er eiginlega já. Lengra svarið er að gjaldskráin eða einingakerfið byggist eingöngu á að sérfræðingurinn veiti ákveðna þjónustu. Það eru engin tengsl við að hann þjóni tilteknum landshlutum eða árangur náist af meðferðinni,“ svaraði María.

Hún bætti við að verið væri að undirbúa nýja samninga við sérgreinalækna. Í þeirri vinnu hefðu komið fram hugmyndir til að tryggja að þjónusta við tiltekna landshluta verði meira í átt við þá þörf sem þar er. Til dæmis að borgað verði sérstakt álag fyrir að sinna sjúklingum í mikilli fjarlægð, komur sérgreinalækna skipulagðar í enn meira mæli í samráði við heimamenn, að gerðir verði samningar milli umdæmissjúkrahúss, Sjúkratrygginga og læknis þannig að sami sérfræðingur komi ítrekað á sama svæði. Með því gætu þeir tekið að sér ákveðið hlutverk, til dæmis tekið þátt í uppbyggingu teyma.

Verður að snúa við allri þróun sem ekki er á forsendum notenda

Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, sagði að stofnunin hefði reynt að efla þjónustu sérgreinalækna. Nýr samningur yrði til þess að efla hana. Hann fagnaði því að til stæði að fara betur yfir hvers konar þjónustu þyrfti að veita á hverjum stað. „Þjónusta án aðgengis er gagnlaus. Hún er á köflum tilviljunarkennd eða ekki á forsendum þeirra sem þurfa þjónustuna heldur þeirra sem veita hana. Við verðum að snúa við allri þróun í kerfinu sem ekki er byggð á forsendum notenda.

Við erum með kerfi byggt upp af hámenntuðu fólki, sérfræðingum. Það getur verið erfitt að átta sig á að við erum þjónar. Þjónn er sá sem sinnir þjónustu á forsendum þess sem hefur þörfina. Það er ekki nóg að segja að við séum þjónar og veitum þjónustu, það verður að komast inn í DNA heilbrigðiskerfisins. Við verðum að hugsa um íbúa þessa lands sem eiga, nota og borga fyrir kerfið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.