Heimilisofbeldismálum fjölgar milli ára á Austurlandi

„Skráðum heimilisofbeldismálum fjölgar milli ára á Austurlandi. Þar gæti verið um lítillega breytta skráningu að ræða fremur en raunfjölgun. Lögreglan er þó vakandi yfir málefnum sem tengjast heimilisofbeldi þar sem aukning hefur átt sér stað í öðrum landshlutum á því sviði. Á það sérstaklega við eftir að sóttvarnarreglur vegna COVID voru teknar upp.“

Þetta kemur fram á vefsíðu lögreglunnar á Austurlandi. Þar er farið yfir helstu tölur um afbrot í umdæmi lögreglunnar fyrstu tíu mánuði áranna 2015 til 2020. Um bráðabirgðatölur er að ræða.

Fram kemur að hegningarlagabrotum fækkar lítillega milli ára á tímabilinu. Umferðarslysum fækkar einnig.

„Ef svo heldur sem horfir kunna umferðarslys að vera færri þetta árið en þau hafa verið frá árinu 2006. Væri það afar ánægjuleg og velkomin rós í hnappagat okkar vegfarenda,“ segir á vefsíðunni.

Umferðarlagabrot eru svipuð að fjölda í ár og þau voru 2018 og 2019. Þá er talsverð fjölgun í tilteknum brotaflokkum umferðarmála sem lögregla hefur lagt áherslu á í eftirliti sínu.

Lögregla mun leggja áherslu á eftirlit með dvalar- og atvinnuleyfum útlendinga í nóvembermánuði auk þess sem eftirlit verður með leyfamálum veiðimanna í fjórðungnum. Þá verður fylgst með ljósabúnaði ökutækja, ekki síst kerra sem eru á stundum nokkuð ljóslitlar. Einnig verður fylgst með ábyrgðatryggingu og skoðun ökutækja. Eru eigendur ökutækja hvattir til að huga að síðarnefndu atriðunum svo ekki þurfi að koma til afskipta, að því er segir á vefsíðunni.

Mynd: Amnesty.org

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.