Heimilað að taka svefnskála og þreksal úr vinnubúðum Alcoa

alver_eldur_0004_web.jpg
Hæstiréttur hefur heimilað Gunnþóri ehf. að fara fram á að fyrirtækinu verði afhentur hluti vinnubúða Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði úr umsjá Stracta Konstruktion ehf. með beinni aðfararaðgerð. Rétturinn snéri þar með við dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem taldi of mikinn vafa vera í málinu til að hægt væri að réttlæta slíka aðgerð.

Ástjörn keypti vinnubúðirnar að Hrauni af Alcoa Fjarðaáli með samningi 20. apríl í fyrra. Félagið fékk þær afhentar 23. júlí eftir að hafa lagt fram fjörutíu milljóna bankaábyrgð og lofast til að fjarlægja búðirnar og ganga frá svæðinu samkvæmt kröfum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar fyrir september 2013.

Áður en kaupsamningurinn var undirritaður hafði Ástjörn hins vegar selt umræddar einingar, fimm svefnskála og þreksalinn með öllum þeim tækjum sem voru í byggingunum, til Gunnþórs ehf. Ástjörn veitti Gunnþóri heimild til að sækja eignirnar í byrjun ágúst í fyrra.

Restin var seld, einnig fyrir undirritun samningsins við Alcoa, til Vista ehf.. Þaðan keypti Stracta búðirnar 4. maí í fyrra. Vista tók einnig við ábyrgð af frágangi svæðisins af Ástjörn með samningunum.

Ekki var lagður fram kaupsamningur af hálfu Stracta frá þessum degi aðeins bankaábyrgð frá síðasta sumri. Í samkomulagi segir hins vegar að kaup Stracta miðist við vinnubúðirnar óskiptar eins og þær standa og með öllu sem þeim fylgi að undanskildum 52 einingum sem þegar hafi verið seldar.

Fyrir dómi báru stjórnendur Stracta að þeir hefðu þar talið að um væri að ræða hús sem sveitarfélagið Fjarðabyggð hefði óskað eftir að halda eftir. Héraðsdómur taldi að ekki hefði verið unnt að leysa úr ágreiningi um túlkun samningsins og því væri „varhugavert“ að aðfararbeiðnin næði fram að ganga.

Hæstiréttur taldi hins vegar „engan vafa“ á að Gunnþór ætti vinnubúðirnar. Þá hefði Stracta ekki vísað til neinna gildra heimilda eða raka fyrir að betri réttur þeirra stæði í veg fyrir að Gunnþór fengi eignirnar. Dómurinn féllst því á aðfararbeiðnina.

Í dómunum segir að Alcoa Fjarðaáls hafi ekki komið að þessum málum eða dóminum. Með sölunni til Ástjarnar hafi búðirnar farið úr þeirra umsjá og fyrirtækið álitið það sér alls óviðkomandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.