Heimastjórnum verði úthlutað fjármagni til verkefna

Heimastjórnir í hverfum Múlaþings munu fá aukið rými til aðgerða, samkvæmt málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun meirihluta í sveitarstjórn Múlaþings, sem undirritaður var í gær. Viðhald og uppbygging húsnæðis grunnskóla verður í forgangi.

Í málefnasamningnum segir að heimastjórnum verði falin tiltekin þjónusta í nærumhverfi sínu og skilgreint verði fjármagn til smærri samfélagsverkefna sem heimastjórnirnar hafi umsjón með og íbúar geti valið úr tillögum. Þetta er gert til að ná fram markmiði um sterka tengingu sveitarfélagsins við byggðirnar.

Allt gert klárt fyrir nýjan leikskóla

Gera á úttekt til að forgangsraða viðhaldsframkvæmdum þar sem grunnskólarnir verði í forgangi. Eins á að forgangsráða uppbyggingu íþróttamannvirkja í samráði við íþróttafélög. Hækka á frístundastyrk og liðka fyrir samstarfi í íþrótta- og tómstundastarfi, meðal annars með hagsmuni barna úr dreifbýli í huga.

Stefnt er að því að tónlistarskólar séu inni í grunnskólum þar sem kostur er. Ljúka á staðarvali, hönnun og undirbúningi fyrir nýjan leikskóla á Egilsstöðum á kjörtímabilinu.

Vinna á að byggðaþróun fyrir einstök svæði í dreifbýli til að styrkja þar atvinnu og búsetu. Áfram verði stutt við byggðaverkefni á Borgarfirði og hugmyndafræði þess nýtt víðar. Þrýsta á um bætta vetrarþjónustu, lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagns í sveitum.

Skoða á forsendur betri nýtingar byggðakvóta í sveitarfélaginu og þrýsta á um fjármögnun og framkvæmdir ofanflóðavarna á Seyðisfiðri. Sorphirðu og flokkun á að taka til endurskoðunar, stuðla að orkuskiptum og ljúka við loftslagsstefnu.

Þróun safna

Nýr meirihluti horfir til þess að Múlaþing verði miðstöð menningar á Austurlandi, meðal annars með aðgerðaáætlun í menningamálum. Þá beiti sveitarfélagið sér fyrir gerð sameiginlegrar menningarstefnu fyrir allt Austurland.

Í samkomulaginu er heitið stuðningi við söfn, meðal annars með fé til markaðssetningar. Um þau segir ennfremur að kannaður verði grundvöllur fyrir að „þróa starfsemi safnanna með það að markmiði að ná fram hagkvæmni í rekstri og frekari sérhæfingu starfsfólks.“ Ljúka á uppbyggingu Safnahússins á Egilsstöðum.

Endurskoða sumarlokun leikskóla

Gera á úttekt á faglegu starfi skóla og vinna menntastefnu út frá því. Leitað verði leiða með starfsfólki skóla til að auka samstarf þeirra á milli til að nýta betur fólk og búnað. Sérstaða og sjálfstæði hvers skóla verði þó tryggt. Bæta á tölvukost.

Sumarlokun leikskóla verður endurskoðuð til að auka sveigjanleika. Loforð úr kosningunum um að hækka systkinaafslátt og fá elsta árgang leikskóla skilgreindan sem skólaskyldu þannig ríkið komi að skólastiginu rata inn í samkomulagið. Kveðið á um að börn frá 12 mánaða aldri fái leikskólapláss og daggjald endurgreitt að hluta sé næsti leikskóli fullsetinn. Styðja á við dagmæður í samræmi við eftirspurn.

Gera á úttekt á aðgengismálum, meðal annars á göngu- og hjólastígum. Í samræmi við hagsmunafélög verði gerðar aðgerðaáætlanir, annars vegar í málefnum fatlaðs fólks, hins vegar eldri borgara. Stefnt er að því að plássum í dagþjónustu, hvíld og langlegu fjölgi.

Nýkjörnir fulltrúar meirihlutans við undirritunina í gær. Frá vinstri: Jónína Brynjólfsdóttir og Björg Eyþórsdóttir, Framsóknarflokki, Ívar Karl Hafliðason, Guðný Lára Guðrúnardóttir og Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki. Á myndina vantar Vilhjálm Jónsson frá Framsókn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.