Orkumálinn 2024

Hefur áhyggjur af framtíð verkalýðshreyfingarinnar

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs Starfsgreinafélags segist hafa áhyggjur af því að innbyrðisátök verkalýðshreyfingarinnar skemmi fyrir baráttu launafólks. Hún segir Drífu Snædal, sem í morgun sagði af sér sem formaður Alþýðusambands Íslands, hafa sætt linnulausum árásum frá fólki í lykilstöðum innan hreyfingarinnar.

„Þetta kemur mér á óvart en þó ekki. Ég átti von á að hún sæti fram að þingi ASÍ í byrjun október en hún hafði heldur ekki gefið út að hún myndi halda áfram,“ segir Hjördís Þóra.

Drífa var kjörin var formaður ASÍ haustið 2018 eftir að hafa haft betur í kjöri gegn Sverri Mar Albertssyni, framkvæmdastjóra AFLs. Hjördís segir að samstarf hennar við AFL hafi samt gengið afar vel.

„Við erum þannig þenkjandi að við unum niðurstöðu meirihluta, svo lengi sem hægt er vinna með honum, eins og var í þessum tilfelli. Drífa var áður framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og við höfðum unnið með henni þar. Okkar hefur gengið mjög vel að vinna með Drífu og samstarfið verið gott,“ segir Hjördís Þóra

Setið undir linnulausum árásum og tortryggni

Drífa sendi í morgun út yfirlýsingu þar sem hún sagðist ekki hafa treyst sér til að halda áfram eftir komandi þing. Þess vegna hafi hún talið skynsamlegast í ljósi kjaraviðræðna og undirbúnings þings að hætta strax.

Í yfirlýsingu sinni segir Drífa að þrátt fyrir góð samskipti og stuðning margra félaga hafi hún líka lent í óbærilegum átökum innan ASÍ sem dregið hafi úr henni gleðina. Við hafi bæst ákvarðanir stakra félaga sem farið hafi þvert gegn hennar sannfæringu. Vísar Drífa þar beint til hópuppsagna á skrifstofu Eflingar og linnulausrar gagnrýni formanns VR á störf hennar. Samskipti milli fólks séu á plani sem ekki sé hægt að lifa við.

„Ég geri mér grein fyrir að vinnuumhverfi hennar hefur verið afar erfitt upp á síðkastið. Hún hefur setið undir linnulausum árásum og tortryggni á sín störf af félögum innan hreyfingarinnar,“ segir Hjördís Þóra, sem kom inn í miðstjórn ASÍ á þingi 2020.

„Ég hef upplifað þetta líka, endalausa tortryggni og árásir á hennar störf. Án þess að ég fari út í það sem fer fram á fundum þá get ég staðfest að þar hafa verið erfiðar umræður þar og átök, ekki síst vegna málefna Eflingar sem ítrekað hafa komið inn á borð miðstjórnar,“ svarar Hjördís Þóra um hvort hún hafi hafi skynjað þær árásir sem Drífa vísar til innan stjórnarinnar.

„Sem félag þá hefur AFL áhyggjur af framtíð verkalýðshreyfingarinnar, þá meina ég áhrif á baráttu launafólks og réttindi þess. Að henni er sótt úr ýmsum áttum. Drífa hefur lent í sömu stöðu fyrri forseti það er alltaf reynt að gera þá tortryggilega af félögum okkar, sem er óþolandi staða.“

Mesta vinnan í undirbúningi kjarasamninga

Samkvæmt reglum ASÍ á fyrsti varaforseti þess, Kristján Þórður Snæbjarnarson, að taka við formennskunni fram að þingi. Hjördís segir erfitt að segja til um hvað muni gera fram að þingi, hugur margra í forustusveitinni sé við kjarasamninga. Hjördís telur að afsögn Drífu á þessum tímapunkti hafi óveruleg áhrif á það.

„Ég ætla ekki að spá fyrir um hvað gerist varðandi nýja forustu. Við erum upptekin af undirbúningi kjarasamninga því við erum á leið í viðræður við atvinnurekendur á almenna markaðinum og erum búin að móta okkar kröfugerð.

Umboð til viðræðnanna er hjá stéttarfélögunum sem flest hafa látið það ganga áfram til að sameina kraftana. Hjá AFLi hefur samninganefnd félagsins samþykkt og veitt Starfsgreinasambandinu umboð fyrir starfsgreinadeildina, Landssambandi íslenskra verzlunarmanna umboð verslunardeildar og umboð iðnaðarmanna er hjá Samiðn, Sjómannasambandið er með umboð vegna lausra samninga sjómanna. ASÍ hefur meira séð um samskipti við stjórnvöld og/eða sameiginleg mál félaga og sambanda. Samninganefndin getur síðan dregið til baka umboð hvenær sem er, telji hún ástæðu til,“ segir Hjördís Þóra að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.