Hefði verið betra að loka fjöllunum fyrr

Fulltrúar Vegagerðarinnar viðurkenna að fullseint hafi verið brugðist við með að loka veginum yfir Möðrudalsöræfi þar sem yfir 100 vegfarendur lentu í miklum vandræðum í aftakaveðri í gær. Þó nokkur fjöldi virðist hafa hundsað lokunarslár.

Stjórnendur hjá Vegagerðinni hafa í dag farið yfir hvað gerðist á Möðrudalsöræfum í gær. Við Möðrudal gefur að líta stórskemmda bílaleigubíla eftir áfok úr grjóti og steinum en fólkinu var fyrst komið þar í skjól.

„Við höfum lokið við að rýna gærdaginn. Auðvitað hefði verið betra að loka fyrr.

Við vorum mikið að horfa á Austfirði og Suðausturland þar sem rauð viðvörun var í gildi. Þar var spáð miklum hviðum en síður á Möðrudalsöræfunum. Reyndin var síðan á Möðrudalsöræfunum varð meiri stöðugur vindur en búist var við, 25-28 m/s sem kom okkur aðeins í opna skjöldu,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

„Þegar var lokað náðu slárnar aðeins yfir annan helminginn því fólk þurfti að komast niður af fjöllunum. Lokunarpóstarnir voru ekki mannaðir enda nóg að gera hjá björgunarsveitum í öðrum verkefnum. Þegar ljóst var í hvað stefndi þá fór fólk á póstana.

Við teljum að einhver fjöldi hafi síðan farið fram hjá lokuninni eftir að búið vera að setja hana á. Síðan eru heldur ekki slár á vegunum upp með Jökulsá á Fjöllum að Dettifossi, þeir vegir eru vanalega lokaðir á veturna þegar lokana er þörf,“ útskýrir G. Pétur.

Hann segir ljóst að lærdóm þurfi að draga af því sem gerðist á öræfunum í gær. „Þetta virðist eingöngu hafa verið erlendir ferðamenn. Íslendingarnir virðast þekkja betur til og skilja lokunarskiltin. Við þurfum því að huga að því að manna meira þegar mikið er um ferðafólk og vera fljótari að loka.“

Á laugardag hvöttu almannavarnir á Austurlandi og víðar ferðaþjónustuaðila til að upplýsa gesti sína um að ekkert ferðaveður yrði daginn eftir. Þau skilaboð virðast ekki hafa komist til skila í öllum tilfellum.

„Það er viðvarandi vandamál að ná til ferðafólks enda margir á ferðinni. Þetta sýnir að skilaboðin verða að vera mjög sterk því til að fara fram hjá lokunarskilti þarf að keyra yfir á öfugan vegarhelming. Það er ekki gert hugsunarlaust.“

Mynd: Friðrik Árnason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.