Orkumálinn 2024

HAUST hótar Olís dagsektum

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) hefur gefið Olíuverzlun Íslands frest til 15. desember til að ljúka úrbótum við stöð olíufélagsins í Fellabæ. Eftirlitið hefur ítrekað þrýst á félagið um að koma málum þar í lag.

Heilbrigðisnefnd Austurlands, sem er um leið stjórn HAUST, samþykkti á síðasta fundi sínum að leggja 10.000 króna dagsektir á félagið frá og með 15. desember verði ekki búið að gera þær úrbætur á stöðinni sem eftirlitið hefur ítrekað farið fram á.

Á fundinum var tekið fyrir erindi frá Olís þar sem tilkynnt var að framkvæmdir við fylliplan myndi dragast enn frekar, meðal annars vegna tafa á afhendingu tanka frá erlendum birgjum. Erindi félagsins er dagsett 9. október en HAUST hafði fyrr á árinu veitt Olís frest til loka september til að ljúka framkvæmdum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áætlanir Olís um úrbætur við stöðina í Fellabæ tefjast. Á fundi Heilbrigðisnefndarinnar í febrúar var félaginu veitt áminning og frestur til 1. maí til að ljúka framkvæmdum.

Á fundi nefndarinnar í maí var tekið fyrir erindi frá félaginu þar sem heitið var að úrbótum fyrir lok september. Þá bókaði nefndin undrun sína á seinaganginum og benti á að stöðin þyrfti að uppfylla kröfur sem til hennar væru gerðar til að starfsleyfi hennar yrði endurnýjað en það rennur út á næsta ári.

En þar með er ekki öll forsaga málsins sögð. Í fundargerðum Heilbrigðisnefndar kemur fram að úrbótaáætlun Olís fyrir stöðina í Fellabæ hafi upphaflega verið samþykkt í febrúar árið 2016. Þá átti áfyllingarplanið að vera tilbúið í maí sama ár.

Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur nokkrum sinnum verið farið í eftirlitsferðir að stöðinni og gerðar athugasemdir við að ekki hefði verið staðið við fyrirheitin. Til að fylgja því eftir samþykkti heilbrigðisnefnd í lok maí 2017 lokafrest til úrbóta til loka desember sama ár.

Síðan hefur verið haldið áfram að knýja á fyrirtækið um úrbætur, án þess að þær hafi gengið eftir. Í bókun nefndarinnar frá í febrúar síðastliðnum er Olíuverzlunin átalin harðlega vegna endurtekinna vanefnda á úrbótaáætlunum. Undrun er lýst á seinaganginum og afskipta- og metnaðarleysi fyrirtækisins í mengunarmálum harmað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.