HAUST hafnar umsóknum um starfsleyfi fyrir fiskeldi í þremur fjörðum

reydarfjordur_hofn.jpg
Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur hafnað umsóknum um fimmtán starfsleyfi fyrir allt að 200 tonna fiskeldi í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Eftirlitið telur að gengið væri mjög nærri burðarþoli svæðanna með úthlutun leyfanna.

Alls bárust fimmtán umsóknir, upp á 200 tonna framleiðslu. Fjórar fyrir Reyðarfjörð, fimm fyrir Fáskrúðsfjörð og sex fyrir Berufjörð. Þrettán umsóknanna voru á nöfnum einstaklinga sem tengjast fyrirtækinu Laxar ehf. en tvær, í Berufirði, frá Fiskeldi Austfjarða ehf. HAUST hafnaði öllum umsóknunum í nóvember en þurfti að taka málið aftur til meðferðar þar sem andmælaréttur var ekki virtur.

Umsóknunum er hafnað með vísan í hollustulög og reglur um mengun hafs og stranda. Þá telur eftirlitið rétt að meta burðarþol fjarðanna áður en frekari starfsleyfi verði gefin út. Í Reyðarfirði er í gildi leyfi fyrir 6000 tonn af laxi, 3000 tonn í Fáskrúðsfirði og 6000 tonn í Berufirði auk 2000 tonna af regnbogasilungi.

Leyfin sem í gildi eru nokkuð nærri áætluðu burðarþoli fjarðanna. Áætlað er að hægt sé að ala 7000 tonn í Reyðarfirði og 5.200 tonn í Fáskrúðsfirði.

Ýmsar athugasemdir bárust í ferlinu. Þannig benti Skipulagsstofnun á að mörg lítil leyfi saman gætu haft veruleg umhverfisáhrif sem bæði að skoða. Lögfræðinga Laxa ehf. töldu að Umhverfisstofnun ætti að fara með málið en ekki HAUST. 

Djúpavogshreppur hvatti til þess að umsókn fiskeldis Austfjarða, sem tók við eldi HB Granda og þar áður Salar Islandica, yrði samþykkt. Sveitarfélagið hefði árið 2001 samið við Salar Islandica um að gefa ekki öðrum fyrirtækjum framleiðsluleyfi í firðinum. Sveitarfélagið bendir ennfremur á að ekki séu áform um starfsemi hjá Löxum ehf. fyrr en árið 2015 og ekki áform um vistvæna framleiðslu, sem hins vegar séu hjá Fiskeldi Austfjarða. 

Lögfræðingar fyrirtækisins töldu HAUST skuldbundið af samningi Djúpavogshrepps þar sem stofnunin hafi stjórnvald sitt samkvæmt framsali frá sveitarfélögunum. Þeir héldu því einnig fram að umsókn Fiskeldisins ætti að hafa forgang þar sem hún hefði borist fyrr en á það féllst HAUST ekki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.