Hátt í 800 farþegar í fyrstu sumarferð Norrænu

Tæplega 780 farþegar og um 400 ökutæki komu til landsins með Norrænu sem kom sína fyrstu ferð samkvæmt sumaráætlun til Seyðisfjarðar í morgun. Farþegafjöldinn með ferjunni nálgast það sem hann var áður en Covid-faraldurinn skall á.

Samkvæmt upplýsingum frá bæði lögreglu og hafnaryfirvöldum á Seyðisfirði gekk afgreiðsla ferjunnar snurðulaust fyrir sig og fór hún frá Seyðisfirði samkvæmt áætlun um klukkan ellefu eftir um tveggja tíma stopp. Heldur færri fóru með Norrænu utan.

Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, segir að farþegafjöldinn sé áþekkur því sem tíðkaðist í fyrstu sumarferðum fyrir faraldurinn. Þá hefur vorið verið gott enda svokallaðar „cruise-ferðir“, þar sem farþegar koma með rútum sem fara í dagsferðir út frá Seyðisfirði, komnar aftur. Á veturna kemur ferjan á þriðjudagsmorgnum og fer á miðvikudagskvöldi.

Í maí voru farþegar til og frá landinu með Norrænu 4.100 samanborið við 4.600 árið 2019. Norræna getur tekið allt að 1.400 farþega eða um 500 ökutæki. Nokkuð þétt er því skipað ef með henni koma um 1.000 manns. Mun vel vera bókað í ferjuna í sumar og því von á mörgum stórum ferðum.

Norræna lagðist að Strandarbakka samkvæmt venju en við Bjólfsbakka lá skemmtiferðaskipið Hanseatic Inspiration sem tekur allt að 230 farþega. Skipið er í höfn fram að kvöldmat en von er á yfir 70 skemmtiferðaskipum til Seyðisfjarðar í sumar.

Mynd: SigAð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.