Hárrétt viðbrögð eystra skiptu sköpum við að bjarga lífi skotmanns

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landsspítalanum, segir snör og rétt viðbrögð hjúkrunarfólks á Austurlandi hafi átt stóran þátt í að bjarga lífi manns sem skotinn var af lögreglu á Egilsstöðum í síðasta mánuði. Tómas stýrði aðgerð á manninum eftir að hann kom til Reykjavíkur og segir batahorfur hans góðar.

Þetta kemur fram í viðtali við Tómas í nýjasta tölublaði Mannlífs. Maðurinn var skotinn eftir að hafa skotið á hús og bíla í íbúabyggð á Egilsstöðum og ógnað þannig lífi nærstaddra. Hann sætir nú gæsluverðhaldi.

Tómas segir að maðurinn hafi verið hætt eftir atburði kvöldsins 26. ágúst. Hann hafi tapað miklu blóði eftir skot í brjóstholið og blóðþrýstingurinn því orðinn lágur.

Þyrla ekki nógu fljót

Meðal þeirra sem kom að aðgerðunum eystra var fyrrum nemandi Tómasar sem hringdi suður og fékk ráð.

„Hún pantaði neyðarblóð frá sjúkrahúsinu í Neskaupsstað og pantaði flugvél frá Akureyri. Sú tvíþekja er miklu hraðari en þyrla, það hefði tekið miklu lengri tíma að hringja eftir þyrlu og jafnvel þurfa að stoppa á leiðinni til að taka bensín. Ég vil bara sérstaklega hæla fólkinu á Egilsstöðum fyrir hárrétt viðbrögð og viðbrögð þeirra á Akureyri var einnig til fyrirmyndar,“ segir Tómas.

Tómas segir að þegar flugvélin kom suður hafi verið ákveðið að fara með manninn beint á hjartaskurðdeild til að flýta fyrir sem hafi verið rétt ákvörðun. Gerð var stór aðgerð á honum og tókst að bjarga stærstum hluta lungans.

Síðan hafi þurft að rýma til á gjörgæsludeildinni sem hafi verið full upp í rjáfur af Covid-sjúklingum. „Allir hjálpuðust að og búið var til pláss. Einhvern veginn gekk allt upp.“

Tómas kveðst bjartsýnn á að maðurinn, ríflega fertugur karlmaður, nái góðri heilsu. „Hann náði alveg undraverðum bata, miðað við alvarleika áverkans og hversu umfangsmikil aðgerðin var. Það eru auðvitað góðar fréttir fyrir ekki bara hann og hans fjölskyldu heldur einnig lögreglumanninn sem lenti í þeim erfiðu aðstæðum að þurfa að hleypa af skoti á manninn.“

Ekki leggja undir þrjú mannslíf við að bjarga einum

Tómas rifjar upp fleiri sögur sem tengjast Austurlandi í viðtalinu, en hann kom að björgun fjögurra franskra verkfræðinga í Kverkfjöllum. Þeir höfðu farið inn í íshelli þegar stór ísblokk hrundi með þeim afleiðingum að klumpur úr henni fótbraut einn Frakkann sem kastaðist út kalda jökulá.

Tómas var þar ásamt austurrískum skíðagönguhermönnum sem óðu út í ána og náðu manninum upp úr ánni. Tómas hlúði eins og kostur var að manninum og kallaði eftir þyrlu en hún komst ekki vegna vinds á staðnum. Ferð með sjúkrabíl til Akureyrar þótti heldur ekki fýsilegur kostur.

Úr varð að Þórhallur Þorsteinsson, ferðafrömuður, kom frá Egilsstöðum á flugvél sinni og náði að lenda á flugvellinum í Kverkfjöllum. „Þegar við vorum að taka á loft sagði Þórhallur að þetta gæti orðið spennandi. Hann væri nýbúinn að skipta um mótor í vélinni sem væri tveggja manna. Hann tjáði mér jafnframt að hann hefði aldrei tekið á loft með vélina svona þunga frá því skipt var um mótorinn. Ég benti honum á það í léttum dúr við værum að reyna að bjarga einum manni en það mætti ekki leggja undir þrjú mannslíf.

Þórhallur, sem er algjör nagli, gaf allt í botn og upp fór vélin þrátt fyrir okkur þrjá í vélinni. Stefnan var sett á Akureyri. Ferðin þangað gekk vel en ég man samt hvað það sterkur hliðarvindurinn tók í.“

Tekið var á móti mönnunum á Akureyri og tókst aðhlynning þess slasaða vel en Tómas og Þórhallur fóru aftur til baka. „Hann ákvað að reyna að koma mér aftur í Kverkfjöll þar sem hópurinn minn beið í rólegheitum, en þar var næstum 20 stiga heitur hnjúkaþeyr. Sú flugferð var ekki síðra ævintýr. Þórhalli tókst á ótrúlegan hátt að finna gat á milli skýjanna til að koma flugvélinni niður. Hann skilaði mér í Sigurðarskála og hélt svo til Egilsstaða eftir gott dagsverk.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.