„Hárrétt að þetta er mál sem við höfum ekki náð að klára“

Kjósendur á Stöðvarfirði virðast langeygir eftir framkvæmdum við höfnina á staðnum og létu fulltrúa núverandi meirihluta í Fjarðabyggð vita af því á framboðsfundi í gærkvöldi.

Frummælendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komu inn á hafnarmálin strax í framsöguræðu sínum, sögðu að þótt synd væri að framkvæmdunum hefði verið frestað þá gæti það líka verið gæfa því nú væri á borðinu hönnun sem nýttist stærri bátum.

Um leið og opnað var fyrir spurningar úr salnum voru fulltrúar meirihlutans spurðir hverju þeir hefðu lofað fyrir fjórum árum, framkvæmdum við höfnina og endurbótum við tjaldstæðið.

„Það er hárrétt að við höfum ekki náð að klára það mál,“ sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins sem hélt því þó fram að flest allt sem staðið hefði í meirihlutasamkomulaginu hefði verið uppfyllt.

Eðlilegar kröfur um meiri kraft

Hann hafnaði hins vegar að ekkert hefði verið gert á Stöðvarfirði. „Ég er ekki sammála því að enginn peningur hafi verið settur hingað. Það fóru 80 milljónir í höfnina og við erum að vinna í framkvæmdum þótt eðlilegt sé að menn geri kröfur um að það sé gert af meiri krafti.“

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins tók í sama streng, með nýrri hönnun hafnarinnar væri komið til móts við meiri þörf en upphaflega var ætlað. „Stærri höfn mun þjónusta almennilega stóraukna umferð smábáta.“

Hann benti einnig á að Fjarðabyggð hefði með íbúum unnið að endurbótum á félagsheimilinu. Þeim væri að ljúka og húsið yrði klætt í sumar auk þess sem þjónustuhús væri væntanlegt á tjaldsvæðið.

Guðmundur Þorgrímsson, Miðflokki, minnti hins vegar á að loforðin væru meira en fjögurra ára gömul en hann var formaður hafnarnefndar árin 2010-2014. „Því sem var lofað var aldrei efnt. Það voru áform um stórar framkvæmdir upp á 130-140 milljónir en þá neituðu embættismenn því að peningarnir væru teknir úr aðalsjóði. Því var lofað að farið yrði í útboð 2014 en ekkert af þessu hefur verið efnt.“

Menningin mikilvægur atvinnuvegur

Frambjóðendur töluðu um tækifæri í atvinnumálum, einkum fiskeldi og ferðaþjónustu en hugmyndir eru um sláturhús fyrir laxeldi á Stöðvarfirði og gistihús á Kambanesi. Eins lofuðu þeir starf Sköpunarmiðstöðvarinnar.

„Menning getur verið jafn dýrmætur atvinnuvegur og sjávarútvegur eða áliðnaður. Það er misskilningur að listastarf geti ekki verið burðarás í atvinnulífi, þið vitið annað með Sköpunarmiðstöðina og Steinasafnið. Á Seyðisfirði hefur orðið fólksfjölgun því þangað koma ferðamennirnir því veðjað var á menningu. Við getum orðið leiðandi á sviði menningar og lista,“ sagði Almar Blær Sigurjónsson, Fjarðalista.

„Klár á að við þurfum að fækka fólki“

Rúnar Gunnarsson, oddviti Miðflokksins, nýtti framsöguræðu sína til að ræða rekstur sveitarfélagsins sem hann sagði ekki nógu góðan og þess vegna hefði hann boðið sig fram. Hann lýsti efasemdum sínum um árangur í niðurgreiðslum skulda og álögur á íbúa.

„Við komum alls staðar illa út í samanburði. Ef við erum einhvers staðar í fyrsta sæti er það í álögum. Ánægja íbúa – hún er ekki í Fjarðabyggð. Góður rekstur eru þar sem álögurnar eru mestar,“ sagði Rúnar sem ítrekað bar saman Fjarðabyggð og Garðabæ.

„Við erum með einn starfsmann á hverja 14 íbúa en vel reknu sveitarfélögin með upp í einn á hverja 24. Við getum ekki rekið sveitarfélagið svona.“

Úr salnum var Rúnar spurður að því hvort hann hygðist laga hlutfallið með að loka stofnunum, einkum skólum og reka starfsmenn sem væru flestir í skólunum.

„Ég er klár á að við þurfum að fækka fólki. Þetta er mjög einfalt, við ætlum bara að reka sveitarfélagið miklu betur.“

Bæjarskrifstofurnar ekki fullar af fólki að gera ekki neitt

Jens Garðar varði starfsmenn sveitarfélags. „Við verðum að átta okkur á að við erum um 5000 manns og við rekum sex grunnskóla og sex leikskóla auk íþróttamiðstöðva og sundlauga. Uppistaðan af okkar starfsmönnum er í fræðslumálunum.

Þegar ég var í Eskifjarðarskóla voru helmingi fleiri börn og helmingi fleiri starfsmenn. Við verðum að passa okkur á þessum málflutningi því þá byrjar slagurinn aftur um skólana og það fleiri en einn,“ sagði Jens og hafnaði því ennfremur að bæjarskrifstofurnar væru „yfirhlaðnar fólki sem væri ekki að gera neitt.“

Frambjóðendur Fjarðalistans notuðu tækifærið til að minna meirihlutann á að til hefði staðið að loka skólanum á Stöðvarfirði á kjörtímabilinu. Þeirri ákvörðun hefði tekist að snúa við.

Líkt og á Breiðdalsvík voru þeir spurðir út í kostnað við loforð sitt um fríar máltíðir fyrir skólabörn. Oddvitinn Eydís Ásbjörnsdóttir sagði að kostnaður við heitan hádegismat væri um 50 milljónir og aðrar 40 fyrir morgunmat og hressingu. Þessu yrði fundinn staður í forgangsröðun við áætlanagerð.

Birta Sæmundsdóttir lýsti einnig yfir vilja framboðsins til að leggja áherslu á andlega heilsu með að koma á fót skimun fyrir þunglyndi og kvíða í efstu bekkjum grunnskóla.

Reikningur fyrir ljósleiðaravæðingu sendur á sveitarfélögin

Stöðfirðingar spurðu einnig út í samgöngumál og fjarskipti, einkum ljósleiðaravæðingu. Jens Garðar sagði að áform ríkisins um ljósleiðaravæðingu landsins gengju hægt. „Það er ekki jafn flott og talað var digurbarkalega um af sumum stjórnmálamönnum. Reikningurinn hefur meira og minna verið sendur á sveitarfélögin,“ svaraði hann en byrjaði yrði í dreifbýli.

Flutningur þjóðvegarins og ástand Suðurfjarðarvegar var einnig til umræðu sem og ákvörðun Alþingis fyrir áramót um að veita hálfum milljarði í veginn í botni Skriðdals í sumar.

„Stundum heyrist of lítið í bæjarstjórninni þegar þarf að mótmæla. Ég veit að það voru mótmæli þegar ákveðið var að setja 500 milljónir í moldarveg uppi í Skriðdal, bæði Jón Björn og Jens Garðar voru því mótfallnir, en það fór ekki mikið fyrir þeim. Hví er ekki mótmælt að leggja pening í Öxina? Það á að spyrna við fótum þegar svona vitleysa er sett inn á landshlutann okkar,“ sagði Guðmundur Þorgrímsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.