Handstýrður flutningur á störfum úr Fjarðabyggð

nesk.jpg
Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir þungum áhyggjum af áhrifum fyrirhugaðra breytinga á reglum um stjórn fiskveiða á atvinnulíf í sveitarfélaginu. Í raun sé verið að handflytja störf og fjármuni af svæðinu.

Þetta kemur fram í umsögn bæjarráðsins til Alþingis um frumvarpið og skýrslu sem KPMG vann fyrir sveitarfélagið um væntanleg áhrif breytinganna á samfélagið.

Reiknað er með að kvótaskerðingin í Fjarabyggð verði tæp 13.000 tonn. Það samsvarar 1.700 þorskígildistonnum eða 4,5% af kvóta. Mest er skerðingin í loðnu, rúm 8.000 tonn en á annað þúsund í kolmunna og norsk-íslensku síldinni.

Til að halda óbreyttum veiðiheimildum þyrftu útgerðir í Fjarðabyggð að greiða rúman hálfan milljarð króna fyrir leigukvóta. Þá er óvíst að þau geti leigt til sín kvótann. Reiknað er með að útsvarstekjur skerðist um 40-80 milljónir króna og þykir sýnt að tekjur af leigukvóta vegi ekki upp á móti því.

„Ekki er tekið tillit til þess sem gæti orðið ef fyrirtækin þurfa að hagræða enn frekar í mannahaldi, fækka skipum og framkvæma fleiri hagræðingaraðgerðir sem skerða munu útsvar sveitarfélagsins og tekjur hafnarsjóðs,“ segir í umsögninni.

Bæjarráðið varar við „umtalsverðum, neikvæðum“ afleiðingum fyrir atvinnulífið í Fjarðabyggð verði frumvarpið samþykkt óberytt. Fyrir liggi að einu skipi verði lagt og milli 20 og 40 störf tapist á sjó og landi.

„Bæjarráð Fjarðabyggðar hafnar því að aflaheimildir verði fluttar úr sveitarfélaginu með opinberri íhlutun til úthlutunar eftir pólitískum leið um allt land. Slíkt er í raun handstýrður flutningur á störfum úr Fjarðabyggð.“

Bent er á að veiðigjald stærstu útgerðanna í Fjarðabyggð fari úr rúmum 300 milljónum í 3,4 milljarða króna. „Skattheimta á þeim mælikvarða sem boðuð er í frumvörpunum er gríðarleg færsla á fjármunum frá samfélaginu hér á Austfjörðum í ríkissjóð“

Kallað er eftir víðtæku samstarfi hagsmunaðila um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og meðal annars vísað á tillögu „sáttanefndarinnar“ svokölluðu þar sem náðist sátt um breytingar sem hægt væri að gera.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.