Hámarkshraði lækkaður á Lagarfljótsbrúnni eftir óhapp

Hámarkshraði á brúnni yfir Lagarfljót, milli Egilsstaða og Fellabæjar, hefur verið lækkaður niður í 15 km/klst. en viðgerðir standa yfir á brúnni. Ákvörðunin var tekin eftir að bifreið rakst utan í starfsmann í morgun.

Atvikið átti sér stað rétt fyrir hádegið. Bifreið keyrði utan í starfsmann sem var að vinna á brúnni. Maðurinn hélt áfram að vinna fyrst á eftir en fór síðan á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum til athugunar. Meiðsli hans eru talin minniháttar.

Í kjölfarið hefur verið ákveðið að lækka hámarkshraða á brúnni úr 30 km/klst. í 15 km/klst. Jafnframt hyggst Vegagerðin kanna hvernig hægt sé að bæta merkingar á svæðinu.

Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að heilt yfir hafi brúarstarfsmönnum verið sýnd tillitssemi þótt undanbrögð séu frá því. Starfssvæðið sé ekki breitt og því mikilvægt að sýna þeim sem vinna þar við erfiðar aðstæður eins mikla tillitssemi og hægt er.

Umfangsmiklar viðgerðir á brúnni, þar sem meðal annars er skipt um brúargólfið, hófust um miðjan október. Sveinn segir verkið hafa gengið þokkalega og um þriðjungi þess sé nú lokið. Eins og búist hafi verið við setji tefji veðurfar verkið á þessum árstíma og hefur þurft að gera hlé á verkinu dag og dag vegna þess. Ef verkið gengur áfram jafn vel og það hefur gert til þessa verður það langt komið í mars og lokið snemma á vordögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.