Hallormsstaður heitasti staður landsins í júní

Hæsti meðalhiti á landinu í nýliðnum júnímánuði var á Hallormsstað. Mánuðurinn var sá næst heitasti sem mælst hefur á Dalatanga í 80 ára sögu veðurathugana þar.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar í júní. Mánuðurinn var hlýr og sólríkur á austanverðu landinu þar sem hitinn fór oft yfir 20 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað, 11 gráður. Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,2 stig í Neskaupstað föstudaginn 29. Sama dag mældist 22 stiga hiti á Skjaldþingstöðum í Vopnafirði sem var hæsti hitinn á mannaðri stöð.

Á Dalatanga var meðalhitinn 8,4 gráður sem skilar mánuðinum í 2. – 3. sæti 80 ára mælinga þar í júní mánuði. Á Egilsstöðum var hitinn 10,6 gráður sem þýðir níunda sætið í 64 ára sögu og 8,8 á Teigarhorni sem er sama sæti í 164 ára sögu.

Á öllum stöðunum er meðal hitinn meira en gráðu yfir meðalhita júnímánaðar undanfarin tíu ár. Þegar skoðað er meðaltal áranna 1961-1990 verður frávikið meira, 2,2 gráðum yfir á Dalatanga, 1,9 á Egilsstöðum og 1,6 á Teigarhorni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.