Hálfur milljarður í veginn í botni Skriðdals: Áfangi að Axarvegi í mínum huga

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur lagt til að 480 milljónum króna verði varið til að byggja upp veginn í botni Skriðdal áleiðis að Öxi á næsta ári. Formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs fagnar þessum árangri.

„Þetta er stórmál fyrir Austurland, allt ekki síst okkur á héraði. Í mínum huga er þetta áfangi að Axarvegi,“ segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.

Í breytingatillögu meirihluta fjárlaganefndar, sem tekin var til umræðu í þinginu í dag, er lagt til að fjárveitingar til vegamála verði hækkaðar um 755 milljónir. Stærstur hluti þeirrar hækkunar fer austur.

Í tillögunni segir að fjármagnið sé til að leggja bundið slitlag á veginn um Skriðdal og endurbæta hann. Er þar um að ræða kaflann frá Skriðuvatni, þar sem slitlagið endar í dag, að nýjum ætluðum vegamótum upp á Öxi, sem eru heldur neðar en þau sem eru í dag.

„Ég hef sagt að vegurinn eins og hann hefur verið sé til háborinnar skammar. Þetta er mest farna leiðin inn í fjórðunginn sunnan megin frá á sumrin og væri það líka á veturna ef henni væri sinnt.

Þing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað ályktað að Axarvegur sé forgagnsverkefni í samgöngum og eins lýsti fráfarandi ráðherra því yfir að þetta væri forgangsvegur þegar þegar hann flutti Hringveginn af Breiðdalsheiði.

Þessu fögnum við mjög en ætlumst til að þessum framkvæmdum verði fylgt eftir í nýrri samgönguáætlun og henni fylgi líka fjármagn.“

Rekstrargrundvöllur náttúrustofa verði treystur til lengri tíma

Af öðrum hækkunum til Austurlands milli umræðna um fjárlög má nefna að fallið er frá fyrirhuguðum niðurskurði á rekstrarframlagi til náttúrustofa. Því er beint til umhverfis- og auðlindaráðherra að hann endurskoði samninga við stofurnar til að tryggja fjármögnun þeirra til framtíðar. Óvissan sem verið hafi sé ekki boðleg.

Þrjátíu milljónum er veitt til Austurbrúar vegna háskólastarfsemi á Austurlandi og tíu milljóna til LungA skólans á Seyðisfirði. Öðrum tíu milljónum er veitt til menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells.

Ekki er að finna aukningu til sýslumannsins á Austurlandi, fjárveitingar minnka þvert á móti úr 114 í 112 milljónir á milli ára. Í bókun meirihluta fjárlaganefndar segir að breytingar sem gerðar voru á sýslumannsembættunum í byrjun árs 2015 hafi ekki tekist sé skyldi.

Fyrir því eru nefndar tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafi fjárveitingar til embættanna ekki verið nægar til að standa við fyrirheit sem gefin voru um starfsstöðvar og starfsmannahald auk þess sem ekki hafi verið unnið nægilega markvisst að því að afla þeim nýrra verkefna.

Skoða verður menningarhúsin á landsbyggðinni

Þá leggur meirihlutinn fram bókun um menningarhús á landsbyggðinni þar sem ákveðið er að stórauka framlög til Hörpu.  „Á það er bent að meðan framlög hækka jafn ríflega og raunin er, þá er á sama tíma ekki það sama um menningarmál annars staðar á landinu að segja.

Enn hefur ekki verið lokið við menningarsali eða hús á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi. Víðar voru áætlanir um stuðning við minni áform. Það er því eindreginn vilji meiri hlutans að samhliða stórhækkuðum framlögum til Hörpu verði tekin ákvörðun um framtíð þessara áforma,“ segir í bókuninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.