Hálfur mánuður í endurskoðað hættumat

Vonast er til að hægt verði að kynna endurskoðað hættumat fyrir svæðið utan við Búðará á Seyðisfirði eftir 2-3 vikur. Byrjað er að kanna áhrif bráðabirgðavarna í tölvulíkönum.

Núverandi hættumat á ofanflóðum fyrir Seyðisfjörð var kynnt sumarið 2019. Það byggir á rannsóknum sem gerðar voru á árunum 2003-2017 í kjölfar skriðufalla og jarðhreyfinga árin 2001 og 2002.

Hreinn Magni Jónsson, hópstjóri ofanflóða á Veðurstofu Íslands, sagði á upplýsingafundi fyrir íbúa Seyðisfjarðar að ekki væri mikilla breytinga að vænta á núverandi hættumat fyrir byggðina innan Búðarár.

Byrjað að keyra líkön

Einhverjar línur gætu þó færst til. Hættulínur gætu þó færst til þar sem þær miði í dag við útlínur eldri skriða sem fundust við rannsóknirnar, en ekki varnarmannvirki sem búið er að koma upp en ekki nýfengna reynslu eða útreikninga í tölvulíkönum. Byrjað er að láta líkönin reikna út áhrif bráðabirgðavarna sem gerðar hafa verið eftir hamfarirnar um miðjan desember.

Utan Stöðvarlækjar er C-lína, mesta hættan, dregin alveg út í sjó. Þar fyrir ofan eru Þófarnir en hætta er á stórum skriðum úr þeim sem náð geta út í sjó.

Á svæðinu milli Stöðvarlækjar og Búðarár hlykkjast hún meðfram ströndinni en fer þó upp fyrir húsin sem standa næst ánni og kennd hafa verið húsið Múla síðustu vikur. Þar er náttúruleg vörn í landslaginu sem bjargaði húsunum á torfunni í desember.

Hlíðin orðin sterkari

Hreinn Magni sagði að verið væri að meta hve sterk hún væri eftir skriðuföllin í desember, en þess sé vænst að hún hafi frekar styrkst með bráðabirgðavörnum sem byggðar hafa verið. Fleki sem sat eftir þegar stóra skriðan féll er meðal þess sem skoðað er. Talið er að hann aðeins lítið brot hans myndi falla inn að Búðáránni heldur fari hann beint niður á það svæði sem varð verst úti síðast ef hann fellur, jafnvel þótt það verði í skriðu sem sé tugir þúsund rúmmetra á stærð.

Rýmt var á Seyðisfirði fyrir viku í mikilli rigningu og leysingu. Engar teljandi jarðhræringar mældust og segja sérfræðingar Veðurstofunnar það góðs viti og vísbending um að stöðugleiki sé að komast á hlíðina. Þar með þurfi enn meira til þannig að rýmt verði næst.

Litlir drullutaumar láku niður úr skriðusárunum en Hreinn Magni segir enga hættu hafa verið af þeim. Viðbúið sé að efni fari á hreyfingu þar í vætutíð enda standi það í bratta þar sem það verði vart kyrrt lengi.

Upplýsingafundunum fækkar

Fundurinn í gær var sá áttundi í röðinni síðan um miðjan janúar en þeir hafa verið vikulega. Enginn fundur verður í næstu viku en ráðgert er að funda eftir tvær vikur. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sagði að fundað yrði þegar á þyrfti að halda, en þess utan með afmörkuðum hópi íbúa. Þá er stefnt að opnum fundi þegar samkomutakmarkanir leyfi.

Hann kom í gær inn á loforð ríkisins um stuðning við atvinnulíf og samfélag á Seyðisfirið upp á 215 milljónir til næstu þriggja ára og sagði það til marks um að full alvara væri að baki orðum ráðherra í kjölfar hamfaranna. Vonast er til að gengið verði frá formlegum samningi milli Múlaþings, Austurbrúar og ríkisins um verkið á næstu dögum og vinna hefjist innan fárra vikna. 105 milljónir verða veittar á þessu ár en 55 milljónir næstu tvö ár.

Almannavarnir draga saman seglin

Þá verður daglegri opnun þjónustumiðstöðvar almannavarna í Herðubreið hætt eftir þessa viku en þar hafa verið veittar upplýsingar og sálrænn stuðningur. Áfram verður þó hægt að hafa samband í tölvupósti og síma. Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, sem stýrt hefur starfseminni þar síðustu sagði tímann þar hafa verið gefandi og lærdómsríka og hrósaði Seyðfirðingum fyrir festu, hlýhug og samstöðu auk þess sem hún lýsti félagsheimilinu sem gersemi.

Hún sagði verkefni miðstöðvarinnar hafa þróast þær tíu vikur sem hún hefði verið opin. Fyrst hefðu íbúar haft áhyggjur af því hvar þeir gætu verið yfir jólin, síðan hefði verið hugað að tjónamati eigna, þar á eftir hefðu verið spurt um öryggi heima fyrir, í vinnunni og almennt í bænum en síðan hefðu þróunin orðið sú að íbúar töluðu frekar beint við þá sem sæju um viðkomandi verksvið. Hún bætti því við að áfram yrði unnið með Múlaþingi og miðstöðin opnuð á ný ef þörf yrði á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.