Halda átta fyrirlestra um íslenskt handverk

„Við erum mjög stolt af því að hafa orðið fyrir valinu,“ segir Guðný Kristjánsdóttir, formaður og einn af stofendum Salthússins, handverksmarkaðar á Stöðvarfirði, en þangað munu í sumar koma átta erlendir hópar og hlýða á fyrirlestur um íslenskt handverk.Salthúsmarkaðurinn vaknar af vetrardvala á laugardaginn en þetta er níunda sumarið sem hann er starfrækur og eins og nafnið gefur til kynna var hann fyrstu árin í gamla salthúsinu á Stöðvarfirði en er nú að hefja sitt þriðja ár í samkomuhúsinu.

„Það er afar fjölbreytt úrval hjá okkur, bæði prjón, munir úr gleri, hornum, tré og margt fleira. Allt er þetta handunnið af fólki frá Stöðvarfirði, ýmist því sem hér býr eða brottfluttum, en það er í kringum 40 manns á skrá hjá okkur með sínar vörur.“

Guðný segir aðsóknina og söluna vaxa jafnt og þétt milli ára og nú hefur hróður þeirra borist út og eiga þau von á góðum gestum í sumar.

„Okkur barst fyrirspurn þess efnis að taka við átta hópum af skemmtiferðaskipinu Iceland Pro Cruises sem siglir hringinn í kringum landið og halda fyrirlestra á ensku um íslenskt handverk og kynna okkar starfsemi. Skipið stoppar meðal annars á Seyðisfirði þaðan sem þau koma til okkar, en hver hópur telur um tuttugu manns, 50 ára og eldri. Við höfum ekki hugmynd um hver benti þeim á okkur, en við erum afskaplega ánægð og stolt með að hafa orðið fyrir valinu, en fyrsti hópurinn kemur næsta mánudag,“ segir Guðný.

Markaðurinn verður opinn alla daga vikunnar framyfir miðjan september, en hér er Facebooksíða hans.

Salthúsmarkaðurinn á Stöðvarfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar