Hafnsögumaður lærbeinsbrotinn eftir að hafa klemmst milli skipa

Hafnsögumaður á Vopnafirði lærbeinsbrotnaði í gær er hann klemmdist milli hafnsögubáts og flutningaskips. Hafnarvörður segir mildi að ekki hafi farið verr og viðstaddir hafi sýnt fumlaus viðbrögð.

Óhappið varð er hafnsögumaðurinn var að fara frá borði af flutningaskipinu Hoffelli, sem var að fara frá Vopnafirði, yfir í björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson sem gegnir hlutverki hafnsögubáts á Vopnafirði.

Kvika myndaðist undir Sveinbirni sem dró bátinn niður áður en hún kastaði honum upp á ný og til hliðar á hafnsögumanninn sem var í stiga á leið niður úr skipinu þannig að maðurinn klemmdist á milli skipanna.

Fimm manns voru í áhöfn Sveinbjarnar að þessu sinni, þar á meðal Kristinn Ágústsson, hafnarvörður á Vopnafirði. Hann segir nærstadda hafa verið fljóta að ná manninum um borð og hlúa að honum.

„Eftir að þetta gerðist þá gekk mjög vel. Það unnu allir mjög vel saman þótt enginn tæki stjórnina og nokkur okkar lent í svona áður. Samt vissu allir sitt hlutverk,“ segir Kristinn.

Á Vopnafirði fylgir hafnsögu maður skipum út úr höfninni, út fyrir svokallaða Hólma, uns þau eru komin á stefnu út fjörðinn. Því var ekki nema um 10 mínútna sigling fyrir björgunarskipið í land.

Þar biðu lögreglumenn og læknir sem hlúðu að manninum. Sjúkrabíll kom fljótt á vettvang og flutti hinn slasaða á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar gekkst hann undir fimm tíma aðgerð vegna lærbeinsbrots.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.