Hafnar ákærum um tilraunir til manndrápa

Karlmaður, sem ákærður er tvær tilraunir til manndráps í skotárás í Dalseli á Egilsstöðum í ágúst, neitaði þeim hluta ákæra gegn honum þegar aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Austurlands í morgun. Hann játaði þrjá ákæruliði af fimm að hluta.

Við upphaf aðalmeðferðarinnar í morgun var maðurinn spurður hvort hann hefði enn sömu afstöðu til ákæruliðanna og hann lýsti við þinghald í málinu í byrjun desember. Ákæran er í fimm liðum.

Hann hafnaði fyrsta lið ákærunnar um að hafa beint skammbyssu að unnustu sinni á heimil þeirra í Fellabæ að kvöldi fimmtudagsins 26. ágúst. Um leið neitaði hann bótakröfu hennar.

Í öðru lagi var maðurinn ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot með að hafa ruðst inn án leyfis inn á heimili fyrrverandi sambýlismanns unnustu sinnar í Dalseli á Egilsstöðum. Maðurinn var vopnaður og skaut nokkrum skotum af inni í húsinu sem og bifreiðar við húsið. Hann játaði aðra liði ákærunnar en þá að hafa ætlað sér að bana manninum.

Í þriðja lagi var hann ákærður fyrir brot gegn barnaverndarlögum og vopnalögum fyrir að hafa hótað tveimur drengjum sambýlisparsins fyrrverandi og beint að þeim hlaðinni byssu þar sem þeir sátu í sófanum heima hjá sér í Dalseli. Maðurinn hafnaði því að hafa hótað drengjunum en kvaðst aðspurður ekki vefengja að þeir hefðu upplifað ógn.

Maðurinn samþykkti einkakröfur mannsins um bætur vegna tjóns á munum og kröfu drengjanna um miskabætur þótt hann teldi fjárhæð miskabótanna of háa.

Fjórði liður ákærunnar snýr að tilraun til manndráps, eignaspjöll, hættubrot og vopnalagabrot með að hafa skotið þremur skotum úr haglabyssu að lögreglumönnum sem voru í vari við Toyota Landcruiser bifreið í hlaði hússins. Högl lentu í bílnum og húsi á móti. Maðurinn ákæru um tilraun til manndráps og hættubrot en játaði brot gegn vopnalögum og valdstjórninni auk eignaspjalla.

Fimmta lið ákærunnar, um brot gegn valdstjórninni og vopnalögum með að hafa gengið út úr húsinu að lögreglubifreið þar sem lögreglumaður var í vari og ógnað honum, neitaði ákærði.

Ákærði gaf skýrslu fyrstur allra við upphaf aðalmeðferðarinnar í morgun. Fleiri vitni komu í kjölfarið, en ófærð á Héraði riðlaði hins vegar röð þeirra. Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegi auk þess sem gert er ráð fyrir tíma fyrir hana á morgun, samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.