Hafnaði beiðni um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi

Héraðsdómur Austurlands hafnaði beiðni konu frá dvöl í sóttvarnarhúsi við komuna til landsins eftir vinnuferð erlendis. Við úrlausn málsins var meðal annars tekist á um skilgreininguna á yfirráðasvæði íslenskra laga.

Konan, sem er íslenskur ríkisborgari fór frá landinu ásamt eiginmanni sínum á vöruflutningabifreið með Norrænu þann 14. apríl. Leið þeirra lá um Danmörku og Þýskaland til Norður-Póllands, þar sem þau dvöldu í um sólarhring, áður en þau fóru aftur sömu leið til baka.

Þau kom til landsins á ný 27. apríl. Þá á miðnætti tóku gildi nýjar reglur sem skylduðu alla einstaklinga sem voru að koma frá skilgreindum hááhættusvæðum til að dvelja í sóttvarnahúsi, í tilfelli Austurlands Hótel Hallormsstað, þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir. Áhættusvæðin voru sérstaklega skilgreind í reglugerð út frá nýgengi smita á svæðunum. Reglurnar byggðu á lögum sem tóku gildi 22. apríl.

Innan lögsögu þegar lögin tóku gildi

Konan mótmælti þessari ákvörðun yfirvalda. Í fyrsta lagi benti hún á ákvæði í stjórnarskránni um að ekki megi takmarka frelsi einstaklinga. Í öðru lagi benti hún á að lögin hefðu tekið gildi eftir að hún var komin af stað í vinnuferðina. Þar bætti hún við að hún hefði verið komin frá Póllandi þegar lögin voru samþykkt auk þess sem hún hefði verið komin í íslenska lögsögu þegar reglurnar tóku gildi 27. apríl. Þar með teldist hún ekki lengur ferðamaður.

Hún hélt því einnig fram að hún hefði húsnæði til umráða sem hún gæti dvalist í meðan sóttkvínni stæði auk þess sem hún óskaði um undanþágu vegna heimilisaðstæðna, þar sem hún þyrfti að annast ung börn sín og á þeim forsendum að hún hefði verið í vinnuferð. Konan vísaði einnig til þess að samkvæmt evrópskum lögum væru þeir sem starfa við flutninga undanþegnir landamæraskimunum.

Hún óskaði undanþágunnar strax daginn eftir komuna til Íslands. Svör sóttvarnayfirvalda voru þau að aðstæður hennar féllu ekki undir hana en var bent á úrræði til að óska eftir frekara áliti fyrir dómstólum, sem hún nýtti sér.

Markmiðið að vernda heilsu almennings

Af hálfu sóttvarnalæknis var málflutningi konunnar mótmælt og svarað að lögin væru sett til að vernda hag almennings enda hefði sýnt að landamæraeftirlitið væri mikilvægt því reynslan sannað að einn smitaður einstaklingur gæti sett af stað faraldur.

Niðurstaða héraðsdóms var sem fyrr segir sóttvarnayfirvöldum í hag. Í niðurstöðu segir að frelsi borgara megi ekki takmarka með skýrum lagaákvæðum sem dómurinn telur fyrir hendi í sóttvarnareglum sem ætlað sé að vernda brýna almannahagsmuni.

Samkvæmt þeim sé ekki heimild til að veita undanþágu nema veigamiklar aðstæður liggi að baki, sem dómurinn telur konunni ekki hafa tekist á að sýna fram á að þessu sinni. Þá taldi dómurinn reglurnar eiga við um komu til landamærastöðvar sem sé höfnin á Seyðisfirði. Þess vegna hafi reglurnar sannarlega náð yfir konuna þegar hún kom þangað.

Beiðni konunnar um að losna úr sóttvarnahúsinu var því hafnað. Málskostnaður upp á 235 þúsund, þar með talin laun skipaðs verjanda konunnar, voru greidd úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.