Hafa áhyggjur af friðlandi Hólmaness

Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa gagnrýnt tillögu að aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2020-2040 er varðar stækkun á Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Stofnanirnar hafa áhyggjur af því hvaða áhrif stækkunin mun hafa á friðland Hólmaness sem er þar skammt frá.

Fjarðabyggð hyggst halda sig við þær tillögur á aðalskipulaginu sem gagnrýndar eru sökum þess að fyrirhugað er að nýta svæðið fyrir plássfreka iðnaðar- og hafnarstarfsemi. „Það er sveitarfélaginu mjög mikilvægt að geta sýnt fram á að rúmgott svæði til þessara þarfa sé þegar staðfest í skipulagi,“ segir Valur Sveinsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Fjarðabyggðar.

Fyrirhuguð uppbygging á Mjóeyri
Um þessar mundir vinnur Fjarðabyggð að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Fyrr á þessu ári var tillaga að aðalskipulagi á vinnslustigi kynnt en á næstunni má búast við að fullmótuð tillaga á aðalskipulagi verði auglýst. Í tillögu að aðalskipulagi sem kynnt verður á næstu er gert ráð fyrir umtalsverðri stækkun á Mjóeyrarhöfn við Reyðarfjörð. „Núverandi svæði er ekki fullnýtt en þar er einkum gert ráð fyrir flutningastarfsemi og iðnaði tengdum álverinu. Á hinn bóginn hafa á undanförnum árum komið fram margvíslegar hugmyndir um plássfreka iðnaðar- og hafnarstarfsemi sem gæti notið góðs af sterkum orku- og samgönguinnviðum á Mjóeyri. Til dæmis var undirrituð viljayfirlýsing Fjarðabyggðar, Landsvirkjunar og CIP sem varðar grænan orkugarð á Reyðarfirði. Í fyrstu verða kannaðir kostir þess að framleiða rafeldsneyti með vetni á Reyðarfirði en einnig verður farið í að skoða og greina möguleg samlegðaráhrif við aðra starfsemi á svæðinu. Þar verður meðal annars horft til möguleika á orkuskiptum í sjávarútvegi og landflutningum, endurnýtingu varma til húshitunar á Reyðarfirði og notkun súrefnis við landeldi á fiski. Áður hafa verið skoðaðar hugmyndir um nýtingu glatvarma frá álverinu fyrir seyðaeldi, umskipunarmiðstöð fyrir gáma, aðstöðu fyrir olíuleit og birgðahald, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Valur Sveinsson um ástæður stækkunarinnar og tekur fram að mikilvægt sé fyrir sveitarfélagið að hafa svæði í skipulagi fyrir slíka uppbyggingu.

Umhverfisskýrsla fylgir aðalskipulaginu þar sem m.a. er útlistað hvaða umhverfisáhrif stækkun Mjóeyrarhafnar mun hafa í för með sér. „Hafnarsvæðið austan álversins mun verða mjög sýnilegt frá suðurhluta Hólmaness og hafa þannig neikvæð áhrif á sjónræna upplifun þeirra sem njóta útivistar þar. Þau áhrif eru þó að mestu þegar fram komin því álverið sjálft er sýnilegt í sömu átt. Viðbótaráhrif vegna nýja hafnarsvæðisins eru því metin neikvæð og óveruleg. Ásýndaráhrif eru einnig nokkur fyrir þá sem eiga leið um suðurströnd Reyðarfjarðar en þau eru á sama hátt að mestu þegar fram komin. Til að milda hin neikvæðu áhrif má grípa til mótvægisaðgerða: Taka tillit til landslags við hönnun á byggingum, t.d að nota jarðliti eða græn þök.  Nota gróður þar sem hægt er, aðallega austan við helstu mannvirki til að milda ásýnd frá Hólmanesi,“ segir í umhverfisskýrslunni.

„Gera ráð fyrir að höfnin komi til með að hafa veruleg áhrif á hljóðvist, loftgæði, náttúruminjar og ásýnd svæðisins“
Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa komið á framfæri athugasemdum til sveitarfélagsins þar sem stækkunin er gagnrýnd. „Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið segir að markmiðið með friðlýsingu friðlandshluta Hólmaness sé að stuðla að sjálfbærri þróun þess lífríkis sem þar fyrirfinnst [...] Stjórnun slíkra svæða felur í sér að friðlandinu er haldið við með markvissum hætti með það að markmiði að að lífríki þess viðhaldist. Umhverfisstofnun telur að stækkun á hafnarsvæðinu og starfsemin á því geti aukið álag á vistkerfið á friðlandið og haft áhrif á upplifun gesta og útivistargildi í fólkvanginum,“ segir í athugasemd Umhverfisstofnunar.

Náttúrufræðistofnun Íslands vísar einnig í stjórnunar- og verndaráætlun friðlands Hólmaness í athugasemdum sínum „þar sem vitnað er í Aðalskipulag Fjarðabyggðar 2007-2027 um að Hólmanes sé ætlað til almennrar útiveru og náttúruskoðunar og að ekki sé gert ráð fyrir öðrum mannvirkjum á svæðinu en þeim sem vænta má vegna almennrar útivistar. Jafnframt kemur fram að í deiliskipulagi sé það markmið Fjarðabyggðar að auka gildi svæðisins fyrir almenning og stuðla að aðgengi fyrir alla.

 

Náttúrufræðistofnun telur að verulega sé þrengt að friðlandinu Hólmanesi með stækkun Mjóeyrarhafnar til austurs og að hún komi til með að skaða gildi útivistarsvæðisins.“ Þá segir einnig í athugasemdunum: „Stækkun Mjóeyrarhafnar til austurs verður til þess að einungis eru um 600 m frá hafnarsvæðinu í friðlandið Hólmanes og því má gera ráð fyrir að höfnin komi til með að hafa veruleg áhrif á hljóðvist, loftgæði, náttúruminjar og ásýnd svæðisins.“


Valur Sveinsson segir að Fjarðabyggð hafi ekki í hyggju að breyta aðalskipulaginu vegna athugasemda Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og því verði tillaga um stækkun Mjóeyrarhafnar enn í fullmótuðu aðalskipulagi sem kynnt verði á næstunni. Hann bendir á að svæðið sem um ræðir sé allt innan þynningarsvæði álversins. „Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur ekki breytt stefnu sinni um þennan þátt í aðalskipulagstillögunni og því má búast við að sama stefna um hafnarsvæðið komi fram í auglýstri tillögu en hugsanlega með auknum rökstuðningi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.