Hættustigi vegna úrkomu lýst yfir frá klukkan 18

Óvissustig hefur verið lýst yfir á Austfjörðum vegna mikillar úrkomu. Ákveðið hefur verið að hækka viðbúnað upp á hættustig frá klukkan 18:00. Engar ákvarðanir liggja enn fyrir um frekari aðgerðir.

Það er ríkislögreglustjóri sem lýsir yfir óvissustiginu í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi. Ákvörðunin er tekin í kjölfar fundar með Veðurstofu Íslands nú klukkan 13:00.

Viðbragðsstig almannavarna eru þrjú: óvissustig, hættustig og neyðarstig. Á óvissustig, sem nú er í gildi, er hafin atburðarás sem síðar getur leitt til þess að öryggi fólks eða byggðar sé stefnt í hættu. Samráð viðbragðsaðila eykst sem og öll vöktun.

Þetta er enn frekar eflt á hættustiginu þar sem aukið rými er til tafarlausra aðgerða ef þurfa þykir. Þetta þýðir að aðilar eru á því stigi komnir í viðbragðsstöðu ef þróun mála þykir með slík að grípa þurfi til aðgerða svo sem rýminga eða lokana á vegum. Engar slíkar ákvarðanir um slíkar aðgerðir hafa enn verið teknar. Appelsínugul viðvörun tekur gildi fyrir Austurland og Austfirði á miðnætti og gildir í sólarhring.

„Úrkomuákefðin er mikil og því er spáð að það bæti í úrkomuna í kvöld. Við það aukast líkurnar að eitthvað gerist,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna.

Áfram verður fundað með Veðurstofunni í dag og tilkynningar eftir því sem staðan breytist. „Við vitum að staðan er ekki þægileg,“ segir Hjördís.

Úrkoma frá miðnætti var klukkan 14 komin í 55 millimetra í Fáskrúðsfirði og um 50 mm á Norðfirði og Borgarfirði.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.