Hætta að gefa upp sértölur um fjölda í sóttkví

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hefur ákveðið að hætta að gefa upp fjölda einstaklinga í sóttkví á svæðinu þar sem þær hafa verið á skjön við upplýsingar sem gefnar eru út á landsvísu.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar. Þar kemur fram að þrír einstaklingar séu nú í sóttkví í fjórðungnum. Samkvæmt tölum á upplýsingavef embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, covid.is, eru þeir hins vegar 16.

Mismunur hefur verið milli talna aðgerðastjórnar Austurlands og landsstjórnanna frá upphafi faraldursins.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag er það skýrt á þann hátt að hún hafi aðeins talið þá einstaklinga sem eru í sóttkví á Austurlandi án tillits til þess hvort þeir hafi þar skráða búsetu.

Þá hefur aðgerðastjórnin heldur ekki talið með þá sem eru í sóttkví B. Í henni eru oft starfsmenn ákveðinna fyrirtækja sem hafa heimild til að fara milli vinnustaðar og dvalarstaðar svo framarlega sem þeir blandist ekki öðrum þess utan.

Aðgerðastjórnin hefur nú ákveðið að hætta að gefa upp tölur um sóttkví, enda hafa þær verið lágar og ekki tengst smitum um lengri tíma, en vísar í staðinn á covid.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.