Hætt við enn frekari skerðingu þjónustu hjá sýslumanni

Útlit er fyrir á enn frekari skerðingu þjónustu sýslumannsins á Austurlandi ef ekki verður brugðist við fjárhagsvanda embættisins. Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði segja ríkið brjóta lög með að standa ekki undir þjónustu og benda á að ekki hafi verið staðið við fyrirheit sem gefin voru við sameiningu sýslumannsembætta árið 2015.

Uppsafnaður rekstrarhalli embættisins var um síðustu áramót orðinn 40 milljónir króna. Til að mæta því samþykktu starfsmenn þess að taka á sig skerðingu þannig þeir fari niður í 90% starf.

Sú skerðing er nú að koma til framkvæmda. Þann 1. maí síðastliðinn fóru skrifstofustjóri og innheimtufulltrúi í 90% starf og um helgina bættust löglærðir fulltrúar við. Skerðingin tekur gildi fyrir aðra starfsmenn þann 1. september.

Styttri opnunartími og lengri bið

Í bréfi sem Lárus Bjarnason sýslumaður sendi austfirskum sveitastjórnum um miðjan maí segir að ekki hafi enn verið ákveðið endanlega hvernig skerðingin komi niður á starfseminni en búast megi við að breyta þurfi afgreiðslutíma skrifstofa. Þurfi að grípa til lokana megi reikna með að það nái til allra skrifstofa embættisins, til dæmis með lokun eftir hádegi á föstudögum.

Í minnisblaði sem fylgir erindinu er bent á að starfsfólki hafi fækkað hjá embættinu um 18% frá sameiningu sýslumannsembættanna í byrjun árs 2015. Við þessu hefur brugðist með aðhaldi í starfsmannamálum sem aftur leiðir til styttri opnunartíma og lengri afgreiðslutíma mála. Þá hafi endurnýjun tækjabúnað og sameiginlegum fundum fækkað.

Lofað hástöfum að þjónusta yrði ekki skert

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli sameining sýslumannsembættanna hafi verið verulega vanfjármögnuð. Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði lýstu vonbrigðum sínum með útkomu sameiningarinnar á fundi fyrir skemmstu.

„Við sóttum fundi með þáverandi innanríkisráðherra í aðdraganda sameiningar. Þar var mikil áhersla á að sameiningin væri til að efla embættin og öllum til hagsbóta og lofað hástöðum að hún skerti ekki þjónustu,“ sagði Sigrún Blöndal, varabæjarfulltrúi Héraðslistans og fyrrverandi forseti bæjarstjórnar.

Opnunartími og þjónusta sýsluskrifstofunnar á Egilsstöðum hefur verið reglulega til umræðu á fundum bæjarstjórnar. „Við verðum ítrekað með þessi mál á dagskrá því ekki er hægt að halda útibúunum opnum meðan þetta sem þjónusta sem við þurfum nauðsynlega að sækja og hún er ekki aðgengileg með öðrum leiðum.

Telur ríkið brjóta lög

Í bókun bæjarstjórnar segir að miðað við núverandi fjárveitingar til embættisins sé ríkið ekki að standa við að veita þjónustu í samræmi við þörf, lög og reglugerðir.

„Það er stíft að halda því fram að ríkið brjóti lög en það er full ástæða í þessu tilviki. Ráðherra ákveður í reglugerð hvar bæði aðalskrifstofur og aðrar skrifstofur embættanna skuli vera staðsettar og hvaða þjónustu þær veiti.

Í reglugerðinni segir að það skuli vera sýsluskrifstofa á Egilsstöðum sem felur í sér að þar eigi að vera skrifstofa með fullri þjónustu. Þannig er ekki hægt að lýsa henni miðað við núverandi opnunartíma. Að þessu virtu er fullt tilefni til að bera það á ríkisvaldið að það sé að brjóta lög og reglur,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar.

Óviðunandi á dreifbýlu svæði

Í bókunum Fljótsdalshéraðs er því heitið að taka málið upp við dómsmálaráðherra og þingmenn Norðausturkjördæmis. Fleiri sveitarfélög hafa heitið að gera slíkt hið sama.

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar er sú staða sem upp er komin við embættið hörmuð. Þar segir að ekki verði unað við að þjónusta á jafn dreifbýlu svæði og Austurlandi verði skert. Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar lýsir yfir áhyggjum af langvarandi fjársvelti embættanna í kjölfar sameininga. Ljóst sé að sá niðurskurður sem átt hefur sér stað hafi komið niður á þjónustu við íbúa á svæðinu. Minnt er á þau fyrirheit sem gefin voru við breytingarnar 2015 um auknar fjárveitingar og verkefni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.