Hæstiréttur telur ekki ástæðu til að endurskoða dóm vegna skotárásar

Átta ára fangelsisdómur Landsdóms yfir Árnmari J. Guðmundssyni, fyrir skotárás í Dalseli á Egilsstöðum í ágúst 2021, stendur óhaggaður eftir að Hæstiréttur hafnaði beiðni Árnmars um að taka mál hans fyrir.

Umrætt ágústkvöld réðist Árnmar vopnaður hlöðnum byssum inn í hús á Dalseli. Hann spurði eftir húsráðanda, sem hafði skömmu áður skroppið út, og hleypti af skotum eftir að synir húsráðanda höfðu forðað sér út. Síðar skaut Árnmar að lögreglu. Atganginum lauk með því að lögregla skaut Árnmar og særði lífshættulega.

Bæði í Héraðsdómi Austurlands og síðar Landsrétti var Árnmar fundinn sekur um tilraunir til manndrápa með að hafa fyrst farið inn í húsið með þann ásetning að bana húsráðanda, síðan að skjóta að lögregluþjóni.

Eftir dóm Landsréttar skömmu fyrir jól sendi Árnmar Hæstarétti ósk um leyfi til að áfrýja dóminum. Fram kemur í svari Hæstaréttar að Árnmar óski eftir endurskoðun á þeim atriðum sem varða tilraun til manndrápa í ákæru. Ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni.

Annars vegar telur hann að ásetningur hans um að ráða húsráðanda bana verði ekki sannreyndur með beinum hætti. Því hafi túlkun dómstólanna verulega almenna þýðingu. Hins vegar sé dómurinn um að hann hafi ætlað sér að bana lögregluþjóninum rangur. Þar er vettvangsrannsókn lögreglu meðal annars gagnrýnd.

Í svari Hæstaréttar segir að samkvæmt gögnum málsins verði ekki séð að í dómunum séu atriði sem hafi verulega almenna þýðingu eða annarra atriða sem gilda um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Þá byggi dómur Landsréttar að verulegu leyti á sönnunargildi munnlegs framburðar sem ekki verði endurskoðað fyrir Hæstarétti.

Auk tilrauna til manndrápa var Árnmar sakfelldur fyrir fleiri brot svo sem húsbrot, eignaspjöll, brot í nánu sambandi og gegn barnaverndarlögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.