Hækkandi fasteignamat eykur útgjöld íbúa

Fasteignamat í fjórum byggðarlögum á Austurlandi hækkar um 13-18% á milli ára. Hækkunin á tveggja ára tímabili nemur 20-30%. Í kjölfarið hækka fasteignagjöld. Nokkur umræða hefur verið í austfirskum sveitarstjórnum vegna hækkandi gjalda.

Þetta má lesa út úr nýrri skýrslu sem Byggðastofnun sendi frá sér nýverið. Þar er reiknað út fasteignamat og fasteignagjöld á 26 þéttbýlisstöðum á landinu, þar á meðal í Neskaupstað, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði.

Notuð er viðmiðunareign, einbýlishús sem er 161,1 fermetri að grunnfleti og lóðin 808 fermetrar. Fasteignagjöldin eru reiknuð út samkvæmt núgildandi fasteignamati sem gildir frá 31. desember 2018 og samkvæmt álagningarreglum ársins 2019 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi.

Ekki lengur lægstu gjöldin á Vopnafirði

Samkvæmt samantekt Byggðastofnunar er verðmæti eignarinnar mest á Egilsstöðum, 31,2 milljónir en lægst á Seyðisfirði, 18,5 milljónir. Hækkunin milli ára er mest á Egilsstöðum, 18,4%. Sé farið lengra aftur í tímann, eða til 2017 er hækkunin mest á Vopnafirði 30,3%. Sé horft til verðmætis eignanna á landsvísu eru Egilsstaðir og Neskaupstaður um miðbik staða á landsbyggðinni en Seyðisfjörður með þeim lægstu.

Fasteignagjöldin eru hæst á Egilsstöðum og í Neskaupstað, á báðum stöðum um 365 þúsund. Hækkunin á báðum stöðum er í kringum 15% milli ára. Hækkunin er svipuð á Vopnafirði en þar eru lægstu gjöldin af stöðunum fjórum, 285 þúsund. Vopnafjörður hefur löngum verið með lægstu gjöldin í úttekt Byggðastofnunar en er nú fimmti lægsti á landsvísu. Hækkunin þar frá 2017 er rúm 25%. Egilsstaðir og Neskaupstaður eru rétt ofan við miðbik samantektarinnar.

Fasteignagjöld eru sett saman úr fasteignaskatti, lóðaleigu, fráveitu, vatnsgjaldi og sorpgjaldi. Í samantekt Byggðastofnunar er sleginn sá varnagli að þjónusta að baki þessum gjöldum sé mjög mismunandi. Þegar horft er í samanburðinn milli staðanna fjögurra kemur í ljós að veitugjald er áberandi hæst á Egilsstöðum en vatnsgjaldið lægst. Vatnsgjald og sorpgjald er áberandi hæst í Neskaupstað. Lóðaleigan er þar lægst en hæst á Vopnafirði.

Spurt um áhrif sameiningar á fasteignagjöld

Álögur á eigendur fasteigna eru meðal þess sem komið hefur til umræðu í aðdraganda kosninga um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Borgarfjarðarhrepps. Á íbúafundi á Egilsstöðum á mánudagskvöld var talsvert spurt út í áhrif sameiningarinnar á fasteignagjöld. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna, svaraði að ef farið yrði eftir núverandi gjaldskrá Fljótsdalshéraðs myndu fasteignagjöld á hinum stöðunum lækka. Ákvörðun um gjaldskrá sameinaðs sveitarfélags yrði hins vegar alfarið í höndum nýrrar sveitarstjórnar.

Þá sendi Alþýðusamband Íslands sveitarfélögum hringinn um landið bréf um áhrif hækkandi mats í sumar.

Ósammála bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Í bæjarráði Fjarðabyggðar lagði fulltrúi Sjálfstæðisflokks fram bókun á fundi í síðasta mánuði um að álagningarprósenta fasteignagjalda í sveitarfélaginu á íbúðarhúsnæði yrði lækkuð. Í bókuninni er lagt til að fasteignamatsstuðull íbúðarhúsnæði færi úr 0,5% í 0,438% og holræsa- og vatnsgjöld yrðu lækkuð um alls 8 milljónir. Fulltrúarnir vísuðu meðal annars til markmiða í kjarasamningum um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum.

Í bókun fulltrúa Fjarðalista, Framsóknarflokks og Miðflokks er vísað til þess að vinna við fjárhagsáætlun næsta árs væri í gangi. Ef draga ætti úr álögum yrðu um leið að leggja fram tillögu um hvaða rekstri og fjárfestingum ætti að draga úr.

Fréttin birtist í Austurglugganum sem verið er að dreifa til áskrifenda. Þar var ranglega sagt að fulltrúar Sjálfsstæðisflokksins hefðu lagt fram tillögu sem hefði verið felld. Hið rétta er að lögð var fram bókun sem var svarað. Það leiðréttist hér með.
Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.