Gular viðvarnir vegna jólahríðar

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir daginn í dag vegna hríðar á Austurlandi og Austfjörðum. Búið er að loka norður úr frá Jökuldal. Nokkrum jólaguðsþjónustum hefur verið aflýst.

Vegunum um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði var lokað skömmu fyrir hádegi og ófært er orðið til Borgarfjarðar. Hætta er á að færð spillist á fleiri leiðum.

Veðurstofan hefur gefið út viðvaranir fyrir spásvæðin Austfirði og Austurland að Glettingi. Á Austurlandi gildir viðvörunin frá 13:00 í dag til 21:00 í kvöld. Á þeim tíma er spáð norðaustan 13-18 m/s með snjókomu eða éljum og skafrenningi.

Á Austfjörðum gildir viðvörunin frá 14:00 til 23:00. Þar er búist við heldur meira hvassviðri, 15-20 m/s en einnig snjókomu, éljum eða skafrenningi. Á báðum stöðum er varað við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi eru ferðalangar hvattir til að fylgjast vel með tíðindum af færð áður en haldið er af stærð. Þær er að finna á vef Vegagerðarinnar.

Vegna veðurspárinnar hafa hátíðarmessum verið frestað að Skeggjastöðum í Bakkafirði, Hofi í Vopnafirði, Sleðbrjótskirkju í Jökulsárhlíð, Þingmúla í Skriðdal og Valþjófsstað í Fljótsdal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.