
Gul viðvörun gefin út fyrir Austurland
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris á Austurlandi eftir hádegi í dag og fram eftir morgni.Mikið suðvestan hvassviðri gengur yfir landið í dag og voru í gær gefnar út gular viðvaranir fyrir öll spásvæði nema Austurland að Glettingi og Austfirði.
Nú upp úr klukkan níu var gefin út viðvörun fyrir Austurland. Hún gengur í gildi klukkan 14:00 og gildir í sólarhring. Á þessum tíma er búist við 15-20 m/s. Ferðaveður er talið varasamt og fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.
Engin viðvörun er á Austfjörðum en þar er spáð 13-18 m/s þegar líður á daginn.
Veðrið hefur þó ekki enn raskað samgöngum verulega, áætlunarflug til Egilsstaða var á áætlun í morgun.
Ólíkt því sem gerist víða annars staðar þá fylgja hlýindi storminum eystra. Hæsti hiti á landinu í dag var á Egilsstöðum nú klukkan níu, 12,7 gráður og á Seyðisfirði mældust 12,3.