Orkumálinn 2024

Guðbjartur: Óyggjandi að margir hafa veikst af myglu í húsum

gudbjartur_hannesson.jpg
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir það óyggjandi að margir hafi veikst vegna myglusvepps í húsum. Skoða þurfi málið heildstætt, út frá tryggingu og heilbrigðiskerfinu. Hann tekur jákvætt í hugmyndir um að fá Íbúðalánasjóð til að hýsa þá sem ekki geta búið í húsum sínum sem eru skemmd.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á Alþingi á föstudag í svari við fyrirspurn Jónínu Rós Guðmundsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, um stuðning við þá sem búa í skemmdum húsum. Komið hafa fram alvarlegar rakaskemmdir í 50 nýjum húsum á Mið-Austurlandi þar sem rangt efni var notað í loftklæðningar.

„Ég held að það sé alveg óyggjandi að margir hafa veikst og verið í vandræðum og líðanin tengist beint ástandi húsa. Ég treysti nú á að sá þáttur sé fyrir hendi en það þarf að fara heildstætt yfir þetta mál,“ sagði Guðbjartur.

Í fyrirspurn sinni benti Jónína á að engar tryggingar virtust ná yfir tjónið, veikindin virtust vanmetin í heilbrigðiskerfinu og aðrar skýringar nefndar en húsnæðið og byggingareftirlitið virðist ekki í nógu góðu lagi. „Maður heyrir um fleiri og fleiri sem eru í þeirri stöðu að þurfa að leggja fram mikla fjármuni því að jafnvel húsbúnaður og annað er ónýtt vegna þessarar myglu.“

„Við höfum ekki litið svo á að það sé velferðarmál nema sá þáttur er varðar heilbrigðiskerfið, hitt sé meira og minna regluverk annars vegar í umhverfisráðuneytinu í tengslum við byggingarreglugerðir og annað slíkt og hins vegar hjá þeim sem fara með tryggingamál,“ svaraði Guðbjartur.

Þá geti reynst erfitt að sækja rétt sinn gagnvart verktökunum sem byggðu húsin sem sumir hverjir eru orðnir gjaldþrota. „Þegar menn lenda í því að hús dæmast ónýt eða að minnsta kosti óíbúðarhæf vegna myglusveppa er eiginlega engin önnur leið en að endurbyggja húsin og oft verður að rífa þau og byggja ný. 

Hingað til hafa tryggingafélögin ekki séð um þetta og ef verktakarnir sem hafa byggt húsin hafa ekki verið með örugga tryggingu, margir farnir á hausinn, þá stendur fólk uppi í ótrúlega erfiðri stöðu.“

Jónína benti á að Íbúðalánasjóður eigi mikið af lausu húsnæði á svæðinu og spurði hvort til greina kæmi að þeir sem þurfa að flýja ónýt hús út af myglu gætu fengið þar inni meðan gert er við hús þeirra.

Guðbjartur tók jákvætt í þá hugmynd. „Ég mun í framhaldi af þessari fyrirspurn ræða við Íbúðalánasjóð eða vekja máls á því að heimaaðilar skoði með hvaða hætti er helst hægt að lagfæra þessi hús.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.