Grunnskólanemar á Austurlandi sitja ekki við sama borð í Skólahreysti

Ungmennaráð bæði Fjarðabyggðar og Múlaþings hafa farið fram á við aðstandendur hinnar þekktu keppni Skólahreysti að grunnskólanemar hér austanlands fái að sitja við sama borð og aðrir.

Senn fer Skólahreystiskeppni þessa árs að hefjast og sem síðustu ár fer keppnin fram á suðvesturhorninu og hvergi annars staðar. Það þykir ungmennaráðunum miður og hvetja mjög til að aðstandendur og styrktaraðilar sýni því skilning að allir eigi að hafa sömu möguleika og njóta sanngirni.

Hvetja ungmennaráðin til þess að undankeppnin verði á ný flutt hingað austur í einhverju formi en aðeins þannig geta austfirskir keppendur notið stuðnings sinna samnemenda eins og keppendur í skólum fyrir sunnan.

„Á Austurlandi eru 12 grunnskólar sem fá ekki sömu tækifæri í Skólahreysti vegna þessa fyrirkomulags. Það hefur reynst mörgum grunnskólunum of dýrt að senda stuðningslið með keppendum og því hafa nemendur frá Austurlandi sem keppa ekki sama stuðning í undankeppninni og aðrir. Mikil stemmning hefur myndast hjá liðunum þegar þau sjá vini sína, samnemendur, kennara og foreldra hvetja þau áfram.“

Lýsa bæði ungmennaráðin yfir miklum áhuga að aðstoða við uppsetningu á keppninni hér í fjórðungnum ef til þess kemur.

Skólahreysti er og hefur lengi notið mikilla vinsælda meðal grunnskólanema í öllu landinu en það er sanngirnismál að keppendur úti á landi njóti þess sama og skólar í þéttbýlinu suðvestanlands. Mynd Skólahreysti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.