Grjóthrun lokar gönguleiðinni við Hengifoss

Efsti hluti gönguleiðar við Hengifoss hefur verið lokaður vegna hættu á grjóthruni. Mikið og stórt grjót hefur fallið á stíginn síðustu vikuna og stórskemmt palla.


Ragna Fanney Jóhannsdóttir starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs segir að þau hafi kannað aðstæður í gærdag og ákveðið að loka gönguleiðinni.

“Það er augljós hætta áfram á grjóthruni á þessum slóðum,” segir Ragna. “Það töluvert af stórum grjóthnullungum sem virðast enn lausir í hlíðinni og hætta á að þeir falli á göngustíginn.”

Fram kemur í máli Rögnu að þetta sé í fyrsta sinn sem gönguleiðinni sé lokað vegna grjóthruns. “Við höfum áður lokað þessari leið tímabundið en það hefur verið vegna gróðurverndar og ágangs ferðamanna,” segir hún.

Aðspurð um hversu lengi gönguleiðin verði lokuð segir Ragna erfitt að segja nákvæmlega fyrir um það en hún vonar að það verði bráðlega. Á meðan eru allir beðnir um að virða þessa lokun öryggisins vegna.

Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps segir að hann hafi skoðað aðstæður í gærdag og er sammála Rögnu um að enn sé laust grjót sem gæti fallið á gönguleiðina.

“Við erum að vona að hægt sé að opna gönguleiðina fyrir eða um næstu mánaðarmót,” segir Helgi. “Eða þegar frost er alveg farið úr jörðu þarna.”

Fram kemur í máli Helga að það sé slæmt ef leiðinni verði lokað í lengri tíma enda er Hengifoss einn vinsælasti ferðamannastaður á Austurlandi.

Mynd: Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.