„Greinilega mikill hiti í húsinu“

Íbúðarhúsið á Efri Skálateig 2 í Norðfjarðarsveit er nær ónýtt eftir bruna í morgun. Þrennt var í húsinu þegar eldurinn kom út en slapp ómeitt. Talið er að kviknaði hafi í út frá feiti í potti.

„Aðkoman var mjög ljót. Það var greinilegt að mjög mikill eldur var í húsinu og útidyrahurðin brunnin niður þannig að eldurinn stóð út úr húsinu og upp í loftið,“ segir Þorbergur Hauksson, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Útkallið kom tuttugu mínútur yfir tíu í morgun og var slökkvibíll úr Neskaupstað kominn á vettvang tíu mínútum síðar. Þorbergur segir slökkvistarfið hafa gengið vel. Húsið, sem byggt er árið 1980, er þó mikið skemmt, ef ekki ónýtt.

„Við kláruðum dæmið tiltölulega fljótt en hitinn var gríðarlegur, trúlega kominn upp í 800°C. Það var allt farið að bráðna í efri hluta hússins og miklar eldskemmdir líka því eldurinn hafði náð að fara í gegnum vegg.“

Þrennt var í húsinu, tveir fullorðnir og eitt barn, sem komust út af sjálfsdáðum. Þau eru ómeidd. Talið er að kviknaði hafi verið út frá feitipotti í eldhúsinu, eldurinn var að minnsta kosti mestur þar. Vettvangurinn var afhentur lögreglu um hádegið og slökkvistarfinu þá lokið.

Mynd: Arnaldur Máni Finnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar