Gott tímakaup við að skafa framrúðuna

Lögreglan á Austurlandi áminnir ökumenn um að skafa framrúður bíla sinna áður en farið er af stað á morgnana. Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir og sektaðir vegna þess í morgunn. Þrjár bílveltur urðu á Fljótsdalshéraði í skyndilegri hálku í gærkvöldi.

Bílvelturnar urðu milli klukkan átta og níu í gærkvöldi, tvær á Jökuldal og sú þriðja í Egilsstaðaskógi. Loftið var rakt, enginn vindur og skyndilegt frost þannig ökumenn áttuðu sig ekki nógu vel á aðstæðum.

Í tveimur bílanna voru ökumenn einir á ferðinni en einn farþegi í þeim þriðja. Þeir voru fluttir á heilsugæslu til aðhlynningar en meiðsli þeirra voru ekki alvarleg. Hins vegar varð töluvert eignatjón í óhöppunum.

Lögreglan á Austurlandi brýnir fyrir ökumönnum að huga vel að búnaði bifreiða sinna og sérstaklega að skafa framrúðurnar. Brögð hafa verið að því að ökumenn séu latir við það og voru allnokkrir stöðvaðir í umdæminu vegna þess í morgun. Það borgar sig hins vegar yfirleitt að skafa því sektin fyrir það er 20 þúsund krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.