Gott ár hjá Síldarvinnslunni: 260 þúsund króna launauppbót til starfsmanna

svn_logo.jpgSíldarvinnslan hf. hefur ákveðið að greiða föstum starfsmönnum sínum í landi 260 þúsund króna launauppbót í næstu viku. Með þessu er þeim þakkaður góður árangur fyrirtækisins á árinu sem er að líða.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síldarvinnslan sendi frá sér í dag. Þar segir að fyrirtækið hafi áður greitt starfsmönnum sínum 100 þúsund króna uppbót þannig að uppbætur umfram samninga nemi orðið 360 þúsund krónum á árinu.

„Það hefur verið mikil vinna á árinu hjá okkur þar sem allir hafa lagst á eitt við hámörkun verðmæta úr þeirri auðlind sem við höfum aðgang að. Með þessum greiðslum viljum við leyfa starfsmönnum okkar að njóta þess árangurs sem þeir hafa náð með okkur á árinu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að aldrei hafi verið unnið jafn mikið af uppsjávarfiski til manneldis og í ár þótt Síldarvinnslan hafi þurft að laga sig að samdrætti í móttöku fiskimjölsverksmiðja.

Framtíðin er samt óráðin. Aflaheimildir skerðist á næsta ári og óvissa sé um makrílveiðar. Fyrirtækið hafi samt náð að aðlaga sig að sveiflum í aflaheimildum og breytingum á mörkuðum.

„Við erum sífellt að auka verðmæti þess afla sem berst að landi hjá okkur og gera meira úr þeirri auðlind sem við höfum aðgang að, okkur og þjóðinni til framdráttar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.